Fjárfestingafélagið Skel leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi félagsins fór upp um tæp 5% í lítilli veltu.
Dagslokagengi Skeljar var 17,3 krónur og hefur gengi félagsins nú hækkað um rúm 13% á árinu.
Um tíuleytið í morgun var greint frá því að Styrkás hf., félag í 63,4% eigu Skeljar, hefði undirritað í dag samkomulag um helstu skilmála kaupsamnings vegna kaupa á 100% hlutafjár í Hringrás ehf.
Í samkomulaginu er gert ráð fyrir því að heildarvirði (e. enterprise value) Hringrásar sé 6,3 milljarðar en heildarvirði geti orðið allt að 6,5 milljarðar ef árangursviðmiðum er náð.
Áætlaður hagnaður Hringrásar fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði er 244 milljónir árið 2024.
Bókfært virði fastafjármuna Hringrásar að loknum fjárfestingum nemur 6,2 til 6,4 milljörðum og eigið fé félagsins er 2,3 milljarðar.
Hlutabréfaverð Amaroq hækkaði einnig í viðskiptum dagsins og fór gengi málmleitarfélagsins upp um rúm 2%.
Dagslokagengi Amaroq var 154,5 krónur og hefur gengið aldrei verið hærra. Félagið greindi nýverið frá fyrstu gullframleiðslunni og sótti í kjölfarið 4,8 milljarða í hlutafjárútboði.
Flugfélögin Play og Icelandair hækkuðu einnig í viðskiptum dagsins. Gengi Play fór upp um 2% í örviðskiptum. Gengi Icelandair hækkaði einnig um 2% í 215 milljón króna veltu.
Gengi Íslandsbanka leiddi lækkanir er gengi bankans fór niðru um rúmt 1% í 173 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Íslandsbanka var 120,5 krónur.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,18% og var heildarvelta á markaði 3,9 milljarðar.