Fjárfestar og núverandi hluthafar Baridi Iceland hf., aðaleiganda tansaníska félagsins Baridi Group sem á hátt í fimmtíu rannsóknarleyfi víða um Tansaníu, skuldbundu sig í apríl til að taka þátt í hlutafjáraukningu í félaginu upp á samtals 7 milljónir dala, eða sem nemur 900 milljónum króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu Skeljar fjárfestingarfélags, einn stærsta hluthafa Baridi Iceland með tæplega þriðjungshlut, vegna fyrsta ársfjórðungs.
Fjárfestahópurinn sem tekur þátt í hlutafjárútboðinu samanstendur m.a. af íslenskum og erlendum einkafjárfestum, en núverandi hluthafar í félaginu tóku þátt fyrir 3 milljónir dala. Heildarvirði hlutafjár Baridi Iceland er metið á 53 milljónir dala, eða um 6,8 milljarða króna.
Fram kemur að hlutur Skeljar í Baridi Iceland að loknu útboði verði 31,8%. Virði hlutar Skeljar í málmfélaginu, að teknu tilliti til viðskiptaverðs, nemur 16,8 milljónum dala eða tæplega 2,2 milljarða króna.
„Stjórnendur félagsins munu nýta hlutafjáraukninguna til að fjármagna framkvæmdir vegna fyrirhugaðrar koparvinnslu við námuleyfi félagsins í nágrenni við höfuðborg Tansaníu, Dodoma. Samkvæmt áætlunum stjórnenda er stefnt að því að hefja koparvinnslu um mitt næsta ár,“ segir í tilkynningu Skeljar.
Baridi Group er tansanískt félag stofnað 2022 af Kristni Má Gunnarssyni sem er forstjóri félagsins. Kristinn Már þekkir vel til landsins en hann bjó í Tansaníu sem unglingur.
Baridi Group Ltd. á 47 rannsóknarleyfi víðs vegar um Tansaníu; 12 lithium, 7 kopar, 9 grafít, 11 nikkel, 8 gull
Skel upplýsti við birtingu hálfsáruppgjörs sitt í ágúst 2024 að fjárfestingafélagið hefði fjárfest í Baridi Iceland fyrir 318 milljónir króna. Skel átti í kjölfarið 33% hlut í Baridi Iceland á móti 67% hlut Malmquist ehf., félagi Kristins Más. Í kynningu Skeljar kom fram að Baridi Iceland ætti 95% hlut í Baridi Group ltd.
„Breytt lagaumhverfi sem auðveldar erlenda fjárfestingu hefur leitt til þess að Tansanía getur orðið lykilaðili í alþjóðlegum námuiðnaði. Framundan er mikil erlend fjárfesting og uppbygging innviða,“ segir í fjárfestakynningu sem Skel birti síðasta sumar.
Þar kom fram að til skoðunar væri að koma eignarhaldinu á Baridi Iceland í fagfjárfestasjóð í rekstri íslensks sjóðstýringaraðila. Jafnframt var tilkynnt um áform um að sækja 10 milljónir dala í nýtt hlutafé til að fjármagna fyrstu koparvinnsluna.