Skel fjárfestingarfélag og Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, stækkuðu bæði við hlut sinn í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) í síðasta mánuði, samkvæmt uppfærðum hluthafalista.

Skel bætti við sig 3 milljónum hluta, eða 0,17% hlut, sem ætla má að hafi kostað um 52,7 milljónir króna miðað við meðalgengi bréfa VÍS í síðasta mánuði. Skel er næst stærsti hluthafi VÍS með 8,9% hlut sem er um 2,65 milljarðar að markaðsvirði.

Tilkynnt var í apríl 2022 um að Skel hefði eignast 7,3% hlut í VÍS. Skel bætti við sig 1,4% hlut á þriðja ársfjórðungi og fór með um 8,7% hlut í lok september sl.

Sjávarsýn, þriðji stærsti hluthafi VÍS, bætti við sig um 0,07% hlut í desember fyrir um 21,6 milljónir króna miðað við meðalgengi félagsins í mánuðinum. Sjávarsýn á nú 7,5% hlut í VÍS sem er um 2,24 milljarðar að markaðsvirði. Sjávarsýn átti 5,0% hlut í VÍS í árslok 2021 og bætti því alls við sig 2,5% hlut í fyrra.

Einungis Gildi fer með stærri hlut í VÍS heldur en Skel og Sjávarsýn. Lífeyrissjóðurinn á 8,95% hlut sem er um 2,66 milljarðar að markaðsvirði.

Stærstu hluthafar VÍS 31. des 2022

Hluthafi Fjöldi hluta Í %
Gildi - lífeyrissjóður 156.587.657 8,95%
Skel fjárfestingafélag hf. 155.956.533 8,91%
Sjávarsýn ehf. 131.825.000 7,53%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn 127.705.313 7,30%
LSR A-deild 125.550.000 7,17%
LIVE 113.723.596 6,50%
Stapi lífeyrissjóður 75.412.997 4,31%
Birta lífeyrissjóður 64.508.636 3,69%
Brú Lífeyrissjóður 60.282.691 3,44%
IS EQUUS Hlutabréf 45.724.969 2,61%
IS Hlutabréfasjóðurinn 37.407.122 2,14%
VÍS 33.250.000 1,90%
Lífsverk lífeyrissjóður 32.662.820 1,87%
LSR B-deild 29.450.000 1,68%
LsRb 29.019.520 1,66%
Arion banki hf. 23.607.043 1,35%
Akta Stokkur hs. 21.207.355 1,21%
Vindhamar ehf. 19.800.000 1,13%
Miranda ehf. 19.268.469 1,10%
Almenni lífeyrissjóðurinn 18.744.735 1,07%
Heimild: Nasdaq

Leiðrétt: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar kom fram að Skel hefði bætt við sig 52,7 milljónum hluta í VÍS í desember. Hið rétta er að Skel bætti við sig 3 milljónum hluta.