Skel fjárfestingarfélag og Samkaup, sem rekur verslanir Nettó, hafa ákveðið að slíta samrunaviðræðum fyrir Samkaup og tiltekin félög í samstæðu Skeljar (Orkunnar, Löðurs og Heimkaupa). Þetta kemur fram í tilkynningu Skeljar til Kauphallarinnar.
„Skel gerði kröfu um að hluthafar Samkaupa myndu auka hlutafé félagsins fyrir samruna. Stjórn Samkaupa féllst ekki á þá kröfu og tilkynnti um slit á viðræðunum.“
Skel segir að Samkaup hafi mætt rekstrarlegum áskorunum það sem af er ári. Það sama gildi um matvörueiningar Heimkaupa, en Heimkaup töpuðu 241 milljón króna á fyrri árshelmingi, sem litaðist m.a. af opnun Prís.
„Við fjárfestum miklum tíma og undirbúningi í að koma á laggirnar þriðja stóra aflinu á íslenskum smásölumarkaði. Það eru því óneitanlega vonbrigði að það hafi ekki reynst fjárhagslegar forsendur fyrir því verkefni að þessu sinni,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar.
„Við teljum að neytendur kalli eftir endurnýjun á matvörumarkaði, eins og nýleg opnun Prís sýnir. Í einfaldri mynd þá töldum við rétt og eðlilegt að dregið yrði úr áhættu í rekstri sameinaðs félags með innspýtingu eiginfjár og á það var ekki fallist. Við teljum að allir aðilar hafi unnið sín verkefni í þessu ferli af fullum heillindum og óskum Samkaup velfarnaðar í sinni vegferð.“
Ásgeir bendir á að fjárfestingarfélagið eigi óbeinan 5% hlut í Samkaupum. Hann segir að Skel muni áfram fylgjast náið með þróun Samkaupa.
Virkja þriggja ára vegferð sem búið var að teikna upp
Í tilkynningu frá Samkaupum segir að á síðustu vikum hafi komið upp atvik sem hafi orðið til þess að upphaflegar forsendur samruna voru teknar til endurskoðunar. Þar er væntanlega vísað til krafna Skeljar um hlutafjáraukningu í Samkaupum fyrir samrunann.
Samkaup hafi því komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri fyrir fyrirtækið og hluthafa að viðræðum væri hætt. Það hafi verið það samþykkt á stjórnarfundi Samkaupa í dag.
„Fyrir mér, stjórn Samkaupa og starfsfólki eru þetta vonbrigði eftir þá miklu vinnu sem átt hefur sér stað. Fyrir samrunaviðræður við Skel voru stjórnendur Samkaupa búin að teikna upp aðra vegferð til þriggja ára og nú verður sú áætlun virkjuð. Miðar sú vinna að fjölga tekjustoðum félagsins og gera það fjárhagslega sterkara og öflugan samkeppnisaðila á dagvöru- og fleiri neytendamörkuðum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.
Samkaup segjast hafa byggt upp stærsta vildarkerfi á dagvörumarkaðnum síðustu árin með yfir 80.000 vildarvinum.
„Vildarvinir fá inneign af öllum sínum viðskiptum og aðgang að sér tilboðum í hverri viku. Með þessu bjóða Nettó verslanir lægsta verð á landinu á helstu heimilisvörum og verslanir okkar á landsbyggðinni bjóða vildarvinum sínum lágvöruverð á helstu nauðsynjavörum. Stefnan er að breikka vildarkerfi okkar enn frekar til hagsbóta fyrir neytendur um allt land.“
Hófu viðræður í janúar
Skel fjárfestingafélag og Samkaup ákváðu í janúar síðastliðnum um að hefja könnunarviðræður vegna mögulegs samruna Samkaupa og tiltekinna félaga í samstæðu Skeljar; Orkunnar, Löðurs og Heimkaupa.
Áreiðanleikakönnunum í tengslum við hinn fyrirhugaða samruna lauk í byrjun september. Skel tilkynnti þá um að til stæði að hluthafar Heimkaupa myndu eiga 47,5% hlut í sameinuðu félagi á móti 52,5% hlut hluthafa Samkaupa.
Fréttin var uppfærð eftir að Samkaup sendu frá sér tilkynningu. Fyrirsögn fréttarinnar hefur einnig verið leiðrétt.