Skel fjárfestingarfélag tapaði 314 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 2,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili í fyrra.
Tapið orsakast aðallega af neikvæðri afkomu af skráðum hlutabréfum og varúðarfærslu á verðmæti eignar félagsins á smásölumarkaði, að því er segir í afkomutilkynningu Skeljar.
Afkoma Skeljar - sem er meðal stærstu hluthafa Kaldalóns og Skaga - af skráðum verðbréfum var neikvæð um 426 milljónir króna á tímabilinu. Heildareign fjárfestingarfélagsins í skráðum verðbréfum nam 8.844 milljónum króna í lok júní.
Færðu niður eignarhlut í Heimkaupum um 20%
Fjárfestingarfélagið færði niður virði 81% eignarhlutar síns í Heimkaupum um 794 milljónir króna á fyrri hluta ársins, eða úr ríflega 3,9 milljörðum í 3,1 milljarð sem samsvarar 20% niðurfærslu.
Fram kemur að afkoma Heimkaupa á fyrri árshelmingi var neikvæð um 241 milljónir, en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 145 milljónir króna.
„Rekstur Heimkaupa hefur falið í sér áskoranir og litast að hluta af opnun nýrrar lágvöruverðsverslunar, Prís,“ segir í tilkynningunni.
Á móti kemur færði Skel virði eignarhlutar síns í Orkunni, sem á m.a. samnefnt rekstrarfélag og Löður, upp um 479 milljónir króna „sem er aðallega vegna góðrar rekstrarafkomu og framtíðarfjárflæðis sem færist nær í tíma“. EBITDA-hagnaður Orkunnar og Löðurs nam 954 milljónum á fyrri helmingi ársins en var áætlaður 923 milljónir.
Samrunaviðræður Skeljar og Samkaupa standa enn yfir vegna samruna Samkaupa og tiltekinna félaga í eigu Skeljar, nánar tiltekið Orkunnar IS, Löðurs, Heimkaupa og Lyfjavals. Viljayfirlýsing var undirrituð í maí sl. og niðurstöður áreiðanleikakannanna allra félaga liggja fyrir.
„Viðræður okkar við Samkaup eru yfirstandandi. Áreiðanleikakönnunum er lokið og ég vonast til að við getum greint frá niðurstöðu viðræðna á næstu dögum,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar.
Viðræður um sölu á 80% hlut í Gallon
Fram kemur að samningaviðræður standa yfir við aðila um kaup á 80% hlutafjár Gallon, innviðafélagi í eigu Skeljar. Viðræðurnar eru sagðar á frumstigi. Bókfært virði Gallon í lok júní var 2,9 milljarðar króna. á 2.903 m.kr. við lok tímabils.
Þá gekk Skel á dögunum frá kaupum á 50% hlut í INNO, verslunarkeðju (e. department store) í Belgíu, ásamt Axcent of Scandaniva. Sú fjárfesting var ekki komin inn í bækur Skeljar fyrir fyrri árshelming þar sem viðskiptin gengu í gegn í byrjun júlí.