Móðurfyrirtæki TikTok, ByteDance, hefur sagt upp starfsnema fyrir að hafa vísvitandi valdið tjóni á þróun gervigreindarverkefnis hjá fyrirtækinu. Uppsögnin kemur í kjölfar þess að fregnir um atvikið dreifðust um helgina á samfélagsmiðlum.

Í yfirlýsingu frá ByteDance segir að starfsneminn hafi unnið hjá tækniteymi innan auglýsingadeildar fyrirtækisins og hafi reynslu í gervigreind.

ByteDance hefur þó neitað orðrómum sem fóru í dreifingu um að starfsneminn hafi valdið gríðartjóni á þróun fyrirtækisins. Sagt var að uppákoman hefði valdið skaða upp á 10 milljónir dala, sem fyrirtækið harðneitar.

Fjárfestar um allan heim, þar á meðal í Kína, hafa verið að fjárfesta miklum upphæðum í gervigreind. Kínverska útgáfan af ChatGPT, Doubao, er vinsælasta gervigreindarspjallmenni landsins.