Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum á suðvesturhluta landsins að skerða þurfi orku til starfsemi þeirra. Skerðingarnar hefjast þann 24. október að öllu óbreyttu. Gripið var til sambærilegra skerðinga í desember 2023 en meðal stórnotenda á suðvesturhluta landsins eru Elkem, Norðurál og Rio Tinto.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að eins og með nýliðin ár þá sé ástæða skerðingarinnar slæm staða miðlunarlóna á Þjórsársvæði. Þótt vætusamt hafi verið á láglendi í sumar var sagan önnur á hálendinu. Þar hafi verið þurrt og jafnframt kalt, sérstaklega í júní og ágúst, svo bráðnun jökla var ekki mikil.

Viðskiptavinum hafi þá verið tilkynnt að grípa þyrfi til skerðinga en er enn óljóst hver þróunin verður næstu vikurnar. Ef haustið verður úrkomusamt gæti staðan strax skánað nokkuð, en grunnvatnsstaða Tungnaár er nú í sögulegu lágmarki og það mun hafa áhrif á rennsli árinnar á komandi vetri.

„Ekki hefði þurft að koma til skerðinga á þessum tímapunkti ef flutningskerfið gerði Landsvirkjun kleift að færa nægilega orku milli landshluta. Hálslón við Kárahnjúka er t.d. þegar komið á yfirfall. Að sama skapi er ólíklegt að grípa hefði þurft til skerðinga ef vindorkuverið við Vaðöldu (Búrfellslundur) væri tekið til starfa, en vonast er til að vindorkuverið verði komið í fullan rekstur undir árslok 2026,“ segir í tilkynningu.

Skerða ekki forgangsorku

Landsvirkjun tekur fram að aðeins sé verið að skerða orku sem Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar hafa samið um að sé skerðanleg þegar staða miðlunarlóna er lág. Landsvirkjun mun standa við alla samninga um afhendingu forgangsorku til stórnotenda og heildsölu.

„Forgangsröðun Landsvirkjunar er sú að megináhersla er lögð á að anna eftirspurn eftir raforku til aukinnar almennrar notkunar í samfélaginu og til innlendra orkuskipta, til að styðja við aukna stafræna vegferð og nýsköpun og til að styðja við framþróun núverandi stórnotenda. Landsvirkjun hefur dregið úr sölu til gagnavera um 50% til þess að fasa út rafmyntir og gert samning við fjarvarmaveitur um forgangsorku sem kemur í veg fyrir olíunotkun á skerðingartímabilinu.“