Meta hefur skorið niður hlutabréfaúthlutanir starfsmanna á sama tíma og fyrirtækið eykur stórfellda fjárfestingu í gervigreind og tengdum innviðum.

Fyrirtækið hefur lækkað árlega úthlutun hlutabréfa um tæplega 10% fyrir flesta starfsmenn, sem samsvarar tugþúsundum starfsmanna, samkvæmt heimildarmönnum Financial Times.

Þetta skerðir einn af lykilþáttum launa starfsmanna, á sama tíma og Meta eykur útgjöld en forstjórinn Mark Zuckerberg hefur lýst árinu 2025 sem „mjög stóru ári“.

Hlutabréfaverð Meta hefur hækkað um nærri fimmtung á árinu 2025 og náð nýjum hæðum.

Á hverju ári fá starfsmenn Meta úthlutuð hlutabréf sem eru stór hluti launakerfisins, ásamt föstum launum og árlegum bónusum. Um er að ræða kauprétt á endurgjalds en starfsmenn geta nýtt réttinn að hlutabréfum á fjögurra ára tímabili, með úthlutun á þriggja mánaða fresti.

Samkvæmt heimildarmönnum FT hafa flestir starfsmenn verið upplýstir um að kaupaukar þeirra yrðu skertir niður um 10% á þessu ári. Nákvæm lækkun getur þó verið mismunandi eftir staðsetningu starfsmanna og stöðu innan fyrirtækisins.

Meta aðlagar hlutabréfaúthlutanir sínar miðað við þróun í greininni en stefnir engu að síður á að bjóða samkeppnishæfustu launakjör á hverju markaðssvæði, samkvæmt heimildarmönnum.

Meta neitaði að tjá sig um breytingarnar

Fyrirtækið hækkaði nýverið ársfjórðungslega arðgreiðslu sína um 5% og stendur hún nú í rúmlega 52 sentum á hlut.

Í tengslum við áherslu sína á gervigreind hefur Zuckerberg lagt áherslu á að reka fyrirtækið með hagræðingu að leiðarljósi.

Meta sagði þúsundum starfsmanna upp árið 2023 en forstjórinn sagði það ár vera „skilvirkni árið“. Í síðustu viku sagði fyrirtækið upp 5% til viðbótar af starfsmönnum sínum, aðallega þeim sem voru taldir skila slökustum árangri.

Starfsmenn hafa rætt þessar breytingar á Blind, nafnlausum spjallvettvangi starfsmanna, þar sem sumir hafa velt fyrir sér stofnun stéttarfélags.

Einn starfsmaður sagði Financial Times að í ljósi bæði niðurskurðar á hlutabréfaúthlutunum og fjölda uppsagna virtist Meta stefna að því að ýta undir náttúrulega starfsmannaveltu á árunum 2026 og 2027.

Zuckerberg sagði á nýlegum fjárfestafundi að hann hygðist gera 2025 að „áhrifamiklu“ ári með því að fjárfesta gríðarlega í því að koma Meta í fremstu röð á sviði gervigreindar.

Þetta felur í sér stórfelldar fjárfestingar í gagnaverum, sem Meta áætlar að muni kosta á bilinu 60-65 milljarða Bandaríkjadala á árinu.

Hann vonast til að langstæðari fjárfestingar í gervigreind muni byrja að skila sér á þessu ári í hörðum samkeppnisgeira þar sem Meta keppir við OpenAI og Microsoft.

Jafnframt hefur Zuckerberg lagt áherslu á að bæta tengsl Meta við ríkisstjórn Donalds Trump, eftir að forsetinn sakaði fyrirtækið um ritskoðun.

Í síðasta mánuði tilkynnti Meta um lokun á staðreyndavakt sinni og rýmkaði reglur um hatursorðræðu, sem margir túlkuðu sem tilraun til að sættast við nýja stjórn.

Zuckerberg heimsótti Hvíta húsið í þessum mánuði til að ræða hvernig Meta gæti stutt Bandaríkin við að efla tæknilega forystu sína á alþjóðavísu.

Hins vegar tilkynnti bandaríska alríkiseftirlitið FTC í síðustu viku að það hefði hafið rannsókn á mögulegri ritskoðun af hálfu tæknifyrirtækja, sem eftirlitið lýsti sem „óamerískri“ og „mögulega ólöglegri“.