Stjórn skóframleiðandans Sketchers hefur samþykkt 9,4 milljarða yfirtökutilboð fjárfestingafélagsins 3G Capital. Fyrirtækið verður afskráð úr NYSE kauphöllinni ef af viðskiptunum verður.

Í umfjöllun Reuters er bent á að yfirtakan sé tilkynnt á sama tíma og fyrirtækið - sem er það þriðja stærsta í heimi á sviði skófatnaðar með árlega veltu upp á 9 milljarða dala samkvæmt tilkynningu félagsins – glímir við áhrif tollastríðs.

Hlutabréfaverð Sketchers hafði fallið um nærri 30% í ár. Fyrirtækið tók afkomuspá sína fyrir yfirstandandi ár úr gildi á dögunum og varaði við neikvæðum áhrifum vegna 145% tolla bandarískra stjórnvalda á innfluttar vörur frá Kína. Stór hluti af skóvörunum sem Sketchers flytur inn til Bandaríkjanna kemur frá Kína.

Kaupverðið nemur 63 dölum á hlut sem er 27,6% yfir dagslokagengi Sketchers á föstudaginn síðasta. Gengi hlutabréfa félagsins hefur hækkað um fjórðung í fyrstu viðskiptum í dag.

3G Capital, sem er stýrt af brasilíska milljarðamæringnum Jorge Paulo Lehmann, er hvað þekktast fyrir fjárfestingar sínar í veitingageiranum, ekki síst með fjárfestingu sína í Kraft Heinz.