Nefnd þriggja óháðra erlendra sérfræðinga hefur skilað forsætisráðherra skýrslu um hvernig Seðlabanka Íslands hefur tekist að framfylgja lögbundnum skyldum sínum. Í skýrslunni er að finna 17 tillögur nefndarinnar er varða peningastefnu, fjármálastöðugleika, fjármálaeftirlit og stjórnarhætti.

„Flestar tillagnanna eru til úrvinnslu fyrir Seðlabankann en nokkrar þeirra snúa að mögulegum lagabreytingum,“ segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.

Í nefndina voru valin Patrick Honohan, fyrrverandi seðlabankastjóri Írlands, Joanne Kellermann, fyrrum stjórnarmanns hollenska seðlabankans, og Pentti Hakkarainen, fyrrum varaseðlabankastjóri Finnlandsbanka og stjórnarformaður finnska fjármálaeftirlitsins.

Í samantekt um skýrslu nefndarinnar segir að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafi verið hrundið í framkvæmd hratt og af skilvirkni. Þá hafi Seðlabankinn brugðist við vaxandi verðbólgu með hætti sem er ekki síðri en viðbrögð seðlabanka í Evrópu og N-Ameríku.

Hins vegar bendi nefndin á að nýja nefndaskipan þurfi að meta í ljósi reynslunnar og ástæða sé til að endurskoða umboð fjármálaeftirlitsnefndar. Þá er bent á að hin miðstýrða stjórnskipan bankans sem hafi orðið fyrir valinu hafi stuðlað að skilvirkri framkvæmd sameiningarinnar en álitamál sé hvernig hún reynist til lengdar.

Tillögurnar sautján snúa meðal annars að betri skilgreiningu á markmiðum inngripa á gjaldeyrismarkaði, aukinni áherslu peningastefnu- og fjármálastöðugleikanefnda á þróun húsnæðisverðs og að regluverki í kringum lífeyrissjóði.