Ísbúð Vesturbæjar hagnaðist um rúmlega 23 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaðurinn saman um tæplega 8 milljónir króna frá fyrra ári. Tekjur ísbúðakeðjunnar námu 533 milljónum króna og drógust, rétt eins og hagnaður, saman um 8 milljónir króna.

Stöðugleiki er viðeigandi orð til að lýsa rekstri Ísbúðar Vesturbæjar síðustu tvo áratugina, enda hefur félagið verið rekið með hagnaði á hverju einasta ári allt frá árinu 2002. Hugsanlega hefur það verið rekið með samfelldum hagnaði enn lengur, en inni á Fyrirtækjaskrá Skattsins er aðeins hægt að nálgast ársreikninga félagsins aftur til ársins 2002.

Saga ísbúðarinnar spannar rúmlega hálfa öld. Engu máli virðist skipta hvað á dynur, alltaf skilar Ísbúð Vesturbæjar hagnaði. Stór áföll í þjóðarsögunni, á borð við bankahrunið árið 2008 og COVID-19 heimsfaraldurinn, sem skall á árið 2020, virðast ekki hafa haft teljandi áhrif á rekstur ísbúðarinnar. Ís-æði Íslendinga er margrómað og virðast efnahagssveiflur hafa lítil sem engin áhrif á ísneysluna.

Á tveggja áratuga tímabilinu 2002-2022 nemur samanlagður hagnaður Ísbúðar Vesturbæjar 479 milljónum króna. Ísbúðin hefur því hagnast um tæplega 23 milljónir króna að meðaltali á umræddu tímabili. Mestur var hagnaðurinn árið 2015, 50 milljónir króna, og minnstur árið 2002, 4 milljónir króna.

Ísbúð Vesturbæjar er alfarið í eigu Kjarnavara, en félagið er framleiðslufyrirtæki sem stofnað var árið 1989. Guðjón Rúnarsson á þriðjungshlut í félaginu en eftirstandandi hlutur er í eigu danska félagsins Dragsbæk A/S. Meðal þekktra vörumerkja Kjarnavara eru Ljóma smjörlíki, Smyrja viðbit, Kjarna sultur og grautar, Kjarna majónes og sósur og Úrvals sósur.

Fréttin er hluti af lengri umföllun um Ísbúð Vesturbæjar í Viðskiptablaði vikunnar.