Orri Hauksson, fyrrverandi forstjóri Símans, furðar sig á því af hverju þeir sem gagnrýndu harðlega útboð Bankasýslunnar á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022 horfi ekki sömu gagnrýnisaugum á nýafstaðið útboð á eftirstandandi 45% hlut ríkisins í bankanum.
Orri var gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála og fagnaði þar að búið væri að selja allan hlut ríkisins í Íslandsbanka „þótt fyrr hefði verið“. Hann sagði þó áhugavert að rifja upp gagnrýnina á fyrstu tvo útboðin á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sérstaklega lokað útboð Bankasýslunnar með tilboðsfyrirkomulagi í mars 2022, þar sem umfjöllun um afslátt frá markaðsgengi og söluverð ríkisins bar mikið á góma.
Hann bendir á að afslátturinn hafi verið meiri í útboðinu sem lauk í þessum mánuði (6,9% samanborið við 4,1% árið 2022), verðið var mun lægra (106,56 krónur samanborið við 117 krónur árið 2022) og kostnaðurinn var mun meiri en síðast (áætlaður um 900 milljónir, samanborið við 440 milljónir árið 2022).
Auk þess hafi verið mikil gagnrýni á skyndigróða í tengslum við lokaða útboð Bankasýslunnar. Orri sagði að í útboðinu að þessu sinni hafi verið mun meiri áhersla lögð á skyndigróða meðal þátttakenda.
„Þannig að þeir sem gátu ekki á heilum sér tekið hérna síðast vegna þessara fjögurra atriða - öll þessi atriði eru miklu bólgnari heldur en [í síðustu útboðum],“ sagði Orri.
„Það er náttúrulega það sem stundum angrar mann varðandi stjórnmálin hvað skinhelgin getur verið mikil. Að eitthvað sem er alveg agalegt á einhverjum tíma og svo verður það atriði, hvort sem menn eru sammála því að það sé eðlilegt eða ekki, enn stærra þá er það bara frábært vegna þess að búið er að snúa stólunum við. Það er nú kannski það sem maður hefur klórað sér í hausnum, að það sé hægt að velta hlutum svona á hvolf.“
Setur spurningamerki við rök Daða Más
Orri sagði markmiðið með einkavæðingu fyrst og fremst að koma atvinnurekstri úr höndum ríkisins til einkaaðila. Hann ítrekaði að það sé ánægjulegt að það hafi verið gert í tilviki Íslandsbanka.
Hvað varðar aðferðafræðina þegar ríkið selur sínar eigur þá sé líklega fyrsta markmiðið að fá sæmilega gott verð fyrir það. Einnig geti verið önnur markmið eins og að stuðla að aukinni þátttöku á hlutabréfamarkaði, ná fram dreifðri eignaraðild eða fá inn kjölfestufjárfesta.
„En ég tók eftir því að fjármálaráðherra var spurður út í þennan miklu meiri afslátt og miklu lægra verð núna heldur en var síðast. Þá sagði hann að það kannski skiptir ekki öllu vegna þess að þarna er bara þjóðin að selja þjóðinni,“ sagði Orri.
„Það getur alveg verið að í einhverjum tilvikum sé bara fínt að ríkið afhendi þjóðinni einhverjar eigur, jafnvel endurgjaldslaust eða á miklum afslætti, en þá þarf það að vera með einhverju fyrirkomulagi.“
Í Íslandsbankaútboðinu sem lauk 15. maí sl. tóku 31 þúsund þátt í tilboðsbók A, en þar af var hópur einstaklinga sem safnaði kennitölum. Orri áætlar að 5-8% þjóðarinnar hafi keypt hluti ríkisins í Íslandsbanka á afslætti.
„Aftur, það er eðlilegt að í svona útboði sé afsláttur á markaðsverði. En ef rökin eru þau að þetta var þjóðin að kaupa - ætli það sé fátækasti hluti þjóðarinnar sem er að kaupa, þessi 5-8%, eða einhverjir aðrir?
Þannig að í prinsippi, ef við notum þá þessa röksemdarfærslu sem kom frá ráðherranum þá er í raun og veru ríkasta fólkið á Íslandi að kaupa afslætti af ríkinu. Þannig að þá er nú frekar betra að senda [hlutabréf] í pósti á alla.“
Af hverju eiga sömu rök ekki við um Landsbankann?
Fjármálaráðherra og nokkrir stjórnarliðar hafa fagnað niðurstöðu útboðsins. Orri sagði að sér þætti athyglisvert út frá því að ákveðnir einstaklingar hafi hrósað sér fyrir söluna, en virðast þó ekki telja sömu rök hníga að því að hefja sölu á Landsbankanum.
„Fyrir utan að þetta uppgjör varðandi Íbúðalánasjóð hafi nú ekki vakið umræðu af hverju á ríkið að vera að taka áhættu af því að vera í þessum lánveitingum sem síðan bara hittir skattgreiðenda fyrir.“
Ný skýrsla frá Ríkisendurskoðun væntanleg?
Þórður Gunnarsson hagfræðingur, sem var einnig gestur í umræddum þætti Þjóðmála, tók undir sjónarmið Orra og benti á að Ríkisendurskoðun hafi verið með ítarlega umfjöllun um söluverðið í útboði Bankasýslunnar í mars 2022. Þórður sagðist gera ráð fyrir að stofnunin endurtaki leikinn vegna síðasta útboðs.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um útboð árið 2022 hafi m.a. komið fram að hefði eignarhlutur ríkisins verið seldur 122 krónum á hlut en ekki 117 krónum, hefði söluandvirði 22,5% hlutar íslenska ríkisins í Íslandsbanka verið 2,25 milljörðum króna hærra en raunin varð.
Þórður sagði að fjárhæðin hafi sennilega verið margfalt hærri í nýafstöðnu útboði ríkisins.
Rætt er um útboð ríkisins á eftirstandandi 45% hlut sínum í Íslandsbanka frá 9:30-20:15.