Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað fimm manna stjórn Tryggingarstofnunar (TR), að því er kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Skipun stjórnarinnar fylgir í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins um að Inga hefði ekki skipað stjórn Tryggingastofnunar þrátt fyrir að lög um að almannatryggingar kveða á um slíkt. Ráðherra hafi réttlætt það út frá því hún hafi uppi áform um að breyta lögunum og leggja þannig niður stjórn stofnunarinnar.
Í tilkynningu félagsmálaráðuneytisins segir að frumvarp ráðherra til breytingar á lögum um almannatryggingar, þar sem meðal annars er áformað að leggja niður stjórn TR, sé nú til meðferðar á þinginu.
„Skipan stjórnarinnar fellur niður þegar ákvæði frumvarpsins um niðurlagningu stjórnarinnar öðlast lagagildi. Hafi ákvæðið ekki öðlast gildi þann 1. nóvember 2025 fellur skipanin jafnframt niður.“
Eftirfarandi einstaklingar voru skipaðir í stjórn Tryggingastofnunar. :
- Ólafur Þór Gunnarsson, formaður
- Ásta Möller, varaformaður
- Sverre Andreas Jakobsson
- Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
- Petrea Ingibjörg Jónsdóttir
Varamenn eru:
- Guðbjörg Sveinsdóttir
- Halla Karen Kristjánsdóttir
- Gunnar Alexander Ólafsson
- Erla Ólafsdóttir
- Kristinn Arnar Diego
Petrea Ingibjörg Jónsdóttir sem var varamaður í fyrri stjórn kemur inn í stjórn sem aðalmaður í stað Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Varamaður í stað Petreu verður Kristinn Arnar Diego.