Egill Almar Ágústsson, sem tekinn er tali í umfjöllun um óvænta hlutafjáraukningu Play í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, bendir á að það sé ekki óeðlilegt að fjárfestar á borð við lífeyrissjóði séu að fjárfesta í íslenskum flugfélögum, enda skipti þau þjóðarbúið verulegu máli.

„Meðal stóru fjárfestanna sem eru að leggja Play til nýtt hlutafé eru lífeyrissjóðir. Sjóðirnir eiga mjög mikið undir að íslenskt hagkerfi fái inn ríflegt tekjuflæði frá erlendum ferðamönnum. Hver ferðamaður eyðir talsverðum fjárhæðum á Íslandi, enda er landið í alþjóðlegum samanburði dýr áfangastaður og því óraunhæft að ferðast hingað og komast hjá því að skilja mikið eftir. Það er því skiljanlegt að fjárfestar sem eiga hluti í hótelum og annars konar ferðaþjónustufyrirtækjum setji fé í fyrirtæki sem koma ferðamönnunum til landsins.“

Hann tekur undir orð Birgis Jónssonar, forstjóra Play, að svo sannarlega sé pláss fyrir tvö sterk íslensk flugfélög, þar sem Icelandair og Play höfði ekki til nákvæmlega sama markhópsins. Innkoma Play muni því, rétt eins og innkoma Wow á sínum tíma, stækka kökuna. „Bæði félögin eru aðallega að sækja farþega erlendis og heimurinn er einfaldlega meira en nógu stór fyrir tvö lítil íslensk flugfélög. Það er enginn skortur af fólki úti í heimi sem vill ferðast yfir Atlantshafið, til Íslands og ýmist annað. Það hefur sýnt sig að nýtt framboð af flugi til og frá Íslandi býr til nýja farþega sem annars hefðu ekki komið til landsins. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf að stutt sé við bakið á íslensku flugfélögunum, þar sem þau búa til mjög miklar gjaldeyristekjur og tækifæri fyrir efnahaginn.“

Því sé mikilvægt að Play verði sýnd ákveðin þolinmæði og félagið fái tækifæri til að fínpússa lággjaldamódelið fyrir íslenskar aðstæður. „Það er búið að taka Icelandair marga áratugi að byggja upp sitt rekstrarmódel og það mun taka Play tíma að fínpússa módelið sitt. Ef, en vonandi þegar, það tekst þá skiptir það verulega máli fyrir Ísland þar sem félagið höfðar til markhóps sem önnur félög, t.d. Icelandair, gera ekki.“

Viðtalið er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.