Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækinu Þorbirni í Grindavík verður skipt upp í þrjú fyrirtæki og verður hvert þeirra með eitt skip úr flota fyrirtækisins í rekstri, samkvæmt Fiskifréttum Viðskiptablaðsins.
Skipin eru þrjú; frystitogararnir Hrafn Sveinbjarnarson GK og Tómas Þorvaldsson GK og ísfisktogarinn Sturla GK. Eignarhald fyrirtækjanna verður í höndum barnabarna stofnanda fyrirtækisins, Tómasar Þorvaldssonar, barna Eiríks, Gunnars og Gerðar.
Þorbjörn hf. er með nýtt skip í smíðum á Spáni, ferskfisktogarann Huldu Björnsdóttur GK 11. Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar, segir að því skipi verði fundið hlutverk þegar það komi til landsins væntanlega í næsta mánuði.
„Það hefur ekki verið ákveðið enn þá hvert þessara þriggja félaga verður með nýja skipið í rekstri. Þetta er allt í undirbúningsferli núna og við erum að skrá nýju fyrirtækin og skipta eignunum upp milli þeirra. Þetta er því allt í mótun,“ segir Gunnar.
Hægt er að lesa umfjöllun Fiskifrétta hér.