Skiptastjórar Wow air segja 1,1 milljarð vera til í þrotabúi Wow air sem stendur. Þrjár milljónir voru til á reikningum Wow þegar það féll. Þetta kom fram á skiptafundi Wow air sem hófst klukkan 1 í dag á Hilton Nordica.
Sjá einnig: Stærstu kröfuhafar Wow air
Þá kom í ljós við yfirferð krafna að heildarfjárhæð krafna sé 151 milljarður króna en ekki 138 milljarðar króna. Almennar kröfur nema hins vegar 138 milljörðum króna og segja skiptastjórar engar líkur á að nokkuð fáist upp í þær.
Alls var 6.000 kröfum lýst í þrotabúið. Meðal annars lýsti Skúli Mogensen og tengd félög 3,8 milljarða króna kröfu, skuldabréfaeigendur Wow tæplega 9 milljarða króna kröfu og Arion banki og Isavia ríflega tveggja milljarða króna kröfu hvor. Stærsta einstaka krafan er frá CIT Aerospace upp á 52 milljarða króna.
Óvíst hvenær skiptum líkur
Þorsteinn Einarsson, annar skiptastjóra þrotabúsins, sagði við Viðskiptablaðið í vikunni að sala eigna hefði gengið samkvæmt áætlun. Hins vegar væri útilokað sé að setja tímaramma á það hvenær skiptum muni ljúka vegna þess hve þrotabúið sé stórt og vinnan við skiptin umfangsmikil.