Fjallað er um könnun Viðskiptablaðsins meðal markaðsaðila í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn síðastliðinn. Í könnuninni eru skiptar skoðanir á þróun á gengi krónunnar á komandi ári.

Þriðjungur þátttakenda telur að gengið muni styrkjast um 2,5-5,0% á árinu. Þá er um fimmtungur sem telur að krónan muni veikjast um 2,5-5,0%. Miðgildið er styrking upp á 2,5-5,0% og meðalspá er 2,3% styrking.

Til samanburðar spáir Hagstofan lítils háttar styrkingu krónunnar á árinu upp á 0,6% en Seðlabankinn veikingu krónunnar upp á 1,2% á árinu. Þá spáði Íslandsbanki í lok september að krónan myndi styrkjast um 1,9% á árinu 2023. Gengið hefur lækkað um 7% síðan þá.

Landsbankinn og Arion banki spáðu í október og nóvember umtalsverðri styrkingu krónunnar gagnvart evru á komandi ári. Landsbankinn spáði 8,3% styrkingu og Arion 5,6% styrkingu. Krónan hefur veikst nokkuð gagnvart evru síðan spárnar voru birtar og meðal annars veikst um 2% það sem af er ári.

Nánar er fjallað um könnunina í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.