Í markaðskönnun Viðskiptablaðsins voru markaðsaðilar spurðir hvort þróun alþjóðamála muni hraða, hægja á eða hafa engin áhrif á vaxtalækkunarferlið hér á landi á árinu. Þátttakendum var gefinn kostur á að rökstyðja svar sitt skriflega.

Svarendur voru á ýmsu máli. Rúmlega 47% telja að þróun alþjóðamála muni hægja á ferlinu, 41% að hún muni hraða því, en tæplega 12% sjá ekki fyrir sér nein sérstök áhrif. Margir í síðastnefnda hópnum benda þó á að áhrifin séu fyrst og fremst óljós og erfitt sé að spá með vissu. Þannig geti tollahækkanir á heimsvísu bæði ógnað hagvexti á Íslandi og í senn verðstöðugleika og því óljóst hvort Seðlabankinn breyti nokkru í vegferð sinni. Tollastríð geti hægt verulega á efnahagsumsvifum og vöruverð lækkað, en að vöruverð gæti einnig hækkað ef aðfangakeðjur raskast verulega líkt og átti sér stað í kringum Covid og þegar stríðið í Úkraínu braust út. Þeir sem telja að þróun alþjóðamála muni hægja á vaxtalækkunarferlinu vísa m.a. til aukinnar óvissu og áhættufælni Seðlabankans.

Þeir markaðsaðilar sem telja að þróun alþjóðamála muni hraða vaxtalækkunarferli Seðlabankans benda margir hverjir á að tollastríð Bandaríkjanna muni draga úr hagvexti í Bandaríkjunum og í öðrum löndum. Með minnkandi aðgengi að bandarískum mörkuðum gætu vörur ratað á aðra markaði, þar á meðal til Íslands, sem gæti aukið vöruframboð og lækkað verðbólgu – og þannig hraðað vaxtalækkunarferlinu. Einnig er bent á að hagvöxtur erlendis sé þegar á niðurleið og að skattastefna stjórnvalda hérlendis verði „hagvaxtardrepandi“. Þótt óvissa ríki um nákvæm áhrif tolla á Ísland, telja sumir að ef útflutningur minnki og efnahagsumsvif dragist saman, muni það kalla á ákveðnari viðbrögð frá Seðlabankanum.

Að lokum benda margir á að fækkun ferðamanna, einkum frá Bandaríkjunum, vegna minni kaupmáttar þar í landi, geti haft kælandi áhrif á hagvöxt hérlendis. Þar að auki sé núverandi raunvaxtastig of hátt miðað við núverandi óvissuástand, að mati sumra. Þessir þættir geti kallað á hraðara vaxtalækkunarferli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.