Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp á næstunni sem snýr að breytingum á lögreglulögum, en drög að frumvarpinu komu inn á samráðsgátt stjórnvalda 8. mars síðastliðinn. Skiptar skoðanir eru á því hvort að frumvarpið feli í sér verulegar auknar heimildir lögreglu og hvort verið sé að taka rétt skref í löggjöfinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segist mótfallin því að lögregla fái heimildir til að beita forvirkum rannsóknarheimildum án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um brot eða undirbúning á broti. „Ég er fyrst og fremst á móti þessu frumvarpi því lögreglan hefur nú þegar víðtækar heimildir til að fylgjast með fólki. Að mínu mati þarf lögreglan að minnsta kosti að hafa einhvern grun að til standi að fremja brot, sem er auðvitað ekki hár þröskuldur,“ segir Þórhildur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Rannsóknir hafa sýnt að svona rannsóknarheimildir beinast öðru fremur gegn jaðarsettum hópum sem nú þegar er mismunað. Það eru fordómar á bak við það hvernig lögregla beitir svona heimildum og það hafa rannsóknir sýnt, meðal annars stór rannsókn í Bretlandi sem sýndi að eftirlit með múslímskum samfélögum í Bretlandi ýtti undir öfgavæðingu. Fólk upplifir sig meira jaðarsett, að það sé ofsótt af lögreglu og þannig radikaliserast það gagnvart lögreglunni og samfélaginu sem það býr í.“

Í frumvarpsdrögunum er mælt fyrir um að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi á höndum eftirlit vegna tiltekinna aðgerða lögreglu í þágu afbrotavarna. Þórhildur gefur hins vegar lítið fyrir þetta.

„Þessi nefnd er ekki sjálfstæð þar sem hún fer ekki með rannsókn á ætluðum brotum lögreglu í starfi. Það er héraðssaksóknari sem gerir það, en hann starfar náið með lögreglu og rannsakar oft brot gegn lögreglu. Ríkissaksóknari hefur bent á hversu óheppilegt það samband er. Auk þess situr héraðssaksóknari í lögregluráði, sem fær mann til að hugsa hvernig hægt sé að halda því fram að embættið sé óháð lögreglunni,“ segir Þórhildur.

Ísland mörgum árum á eftir

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir allur undirbúningur að frumvarpinu liggja að því að svara knýjandi þörf á auknum heimildum í málum sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi, en hann segist eiga von á því að frumvarpið verði lagt fram í október eða nóvember.

„Staðreyndin er sú að skipulögð glæpastarfsemi er orðin umfangsmikil hér á landi og staðan er alvarleg. Það er orðið fullt tilefni til að opna á þessa umræðu og að almenningur geri sér grein fyrir því hvað þetta er orðið viðamikið í íslensku samfélagi. Við höfum fengið viðvaranir frá lögregluyfirvöldum á Norðurlöndum þar sem þau vara við þeirri þróun sem er í gangi hér og segja að við séum mörgum árum á eftir í löggjöfinni. Að ef við stígum ekki fast til jarðar munum við missa tökin á þessu.“

Hann segir árangur í málaflokknum byggja á samstarfi við erlend lögregluyfirvöld og að geta átt við þau náið og traust trúnaðarsamband. „Það sem þetta frumvarp gengur fyrst og fremst út á er að auka heimildir lögreglu svo hún geti mótttekið upplýsingar frá erlendum lögregluyfirvöldum, unnið úr þeim og gefið upplýsingar á móti. Aðeins þannig getum við verið í raunverulegu samstarfi við þessi erlendu lögregluyfirvöld sem eru okkur bráðnauðsynleg til að ná árangri í baráttunni við þessa brotastarfsemi sem er hér undir.“

Auknum heimildum fylgi aukið eftirlit

Jón segist hafa fullan skilning á því að fólk vilji stíga varlega til jarðar þegar kemur að persónuvernd og rétt fólks til einkalífs. Með frumvarpinu vilji hann fyrst og fremst leggja áherslu á mál sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi.

„Þessi málflutningur um að það verði almenn regla í sakamálum á Íslandi að það verði farið í allt þetta eftirlit, eins og til dæmis Þórhildur Sunna hefur haldið fram, er alveg úr takti við okkar nálgun. Annað hvort er sá málflutningur til kominn vegna þess að hún hefur hreinlega ekki kynnt sér málin eða af ásetningi gerður til að sá fræjum tortryggni.“

Hann tekur undir þau sjónarmið að með auknum heimildum fylgi aukin ábyrgð. „Hvort sem það eru frekari heimildir til eftirlitsnefnda með störfum lögreglu eða eftirlitshlutverks ríkissaksóknara, þá er ljóst að með auknum heimildum verður að fylgja aukið eftirlit með störfum lögreglu. Þetta er allt til skoðunar í ítarlegri útfærslu í tengslum við þetta frumvarp.“

Tekur öllum umsögnum alvarlega

Þrjár umsagnir bárust um frumvarpsdrögin í mars, þar á meðal frá Íslandsdeild Amnesty International. Þar kom meðal annars fram að frumvarpsdrögin væru ekki í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga, svo sem mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Aðspurður segist Jón ekki hafa áhyggjur af því að frumvarpið verði ekki í samræmi við mannréttindasamninga, en segir að ráðuneytið taki öllum umsögnum um frumvarpið alvarlega.

„Við erum að ganga mun skemur en mörg þeirra landa sem þykja standa hvað fremst í mannréttindamálum. Norðurlöndin búa til að mynda yfir leyniþjónustum sem hafa miklu víðtækari heimildir en við erum að sækjast eftir með þessari lagasetningu. Við erum einfaldlega að færa okkur nær því að geta spilað á sama leikvellinum.“