Rúmlega 200 skip sitja föst beggja megin við Panamaskurðinn og gætu þurft að bíða vikum saman eftir því að komast í gegn. Yfirvöld í Panama hafa neyðst til að spara vatnsdælurnar út af miklum þurrka og komast því skipin ekki leiða sinna.
Við venjulegar aðstæður fá 36 skip á dag að sigla í gegnum skurðinn en sú tala hefur verið lækkuð niður í 32 skip.
Flest skipin sem sitja föst eru lausaflutninga- eða gasflutningaskip sem bóka yfirleitt siglingar sínar í gegnum skurðinn með stuttum fyrirvara. Mörg skipin hafa nú þegar beðið í meira en 20 daga.
„Tafirnar breytast frá degi til dags og um leið og þú hefur tekið ákvörðun um að fara af stað er mjög erfitt að snúa við. Þannig þú endar bara á því að festast,“ segir Tim Hansen, framkvæmdastjóri Dorian LPG, sem rekur fleiri en 20 stór gasflutningaskip.
Daglega notar Panamaskurðurinn þrisvar sinnum meira vatn en allir íbúar í New York og reiðir sig mikið á úrkomu til að endurnýja vatnsbirgðirnar. Ef regnvatnið dugar ekki þá er dregið úr skipaflutningum og þau skip sem fara í gegn þurfa að borga há iðgjöld.
Ricaurte Vásquez Morales, stjórnandi skurðarins, sagði í síðasta mánuði að teppan gæti verið til staðar út árið. Hann sagði einnig að búast mætti við 200 milljóna dala tekjumissi á næsta ári ef lítil úrkoma heldur áfram að hrjá skurðinn í haust og vetur.
Lítil úrkoma hefur ekki aðeins áhrif á skipaflutninga, heldur líka á almenning í Panama en skurðurinn sér einnig 2,5 milljónum Panamabúum fyrir vatni, eða rúmlega helmingi af landinu.