Starfsemi Eignaumsjónar hefur verið endurskipulögð til að betrumbæta þjónustu, mæta nýjum verkefnum og auka umsvif fyrirtækisins. Breytingarnar fela meðal annars í sér að starfsemi Húsumsjónar er færð undir þjónustusvið og jafnframt hefur nýr forstöðumaður þjónustusviðs verið ráðinn til starfa.

„Með þessum skipulagsbreytingum erum við að samstilla betur þjónustu okkar við hús- og rekstrarfélögin á tveimur meginsviðum, fjármálasviði og þjónustusviði. Fjármálasviðið annast alla þjónustu er snýr að fjármálum en Húsumsjón, sérþjónusta okkar við stærri hús- og rekstrarfélög og rafbílahleðsluþjónusta fyrir húsfélög, færast undir þjónustusviðið, til viðbótar við ráðgjafar-, funda- og þjónustuverkefni,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.

Gunnþór Steinar Jónsson tekur við sem nýr forstöðumaður þjónustusviðs. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og kemur til Eignaumsjónar frá Marel, þar sem hann starfaði í sex ár. Áður starfaði Gunnþór meðal annars hjá Íslandsbanka í yfir áratug, bæði sem lána- og viðskiptastjóri og í fyrirtækja- og einstaklingsráðgjöf.

Til viðbótar við meginsviðin tvö eru í nýju skipuriti Eignaumsjónar fjögur stoðsvið, sem heyra undir framkvæmdastjóra.

  • Atvinnuhús: Sigurbjörg Leifsdóttir, viðskiptafræðingur og fyrrum forstöðumaður fasteignasviðs, leiðir áfram þjónustu við atvinnuhús. Íbúðaumsjón, ný sérþjónusta Eignaumsjónar og sérverkefni heyra einnig undir sviðið.
  • Sala og samskipti: Sölu-, markaðs- og kynningarmál eru sameinuð undir einum hatti. Páll Þór Ármann, rekstrarhagfræðingur og fyrrum forstöðumaður þjónustusviðs, er þar í forsvari.
  • Þróun: Stærri og flóknari fjöleignarhús kalla á sérhæfða þjónustu og fjölbreytilega aðstoð. Bjarni G. Hjarðar, byggingar- og umhverfisverkfræðingur, leiðir þróunarvinnu Eignaumsjónar.
  • Tækni: Upplýsingatækni er æ mikilvægari í starfsemi Eignaumsjónar til að tryggja skilvirka upplýsingagjöf og örugga geymslu gagna. Emil Hilmarsson, tölvunarfræðingur, er upplýsingastjóri Eignaumsjónar.

Ný framkvæmdastjórn Eignaumsjónar er skipuð Daníel Árnasyni framkvæmdastjóra, Ágústu Katrínu Auðunsdóttur, forstöðumanni fjármálasviðs og Gunnþóri Steinari Jónssyni, forstöðumanni þjónustusviðs.