Bandarískur skulda­bréfa­markaður upp­lifir nú dýpstu hræringar í mörg ár, þar sem ávöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa hækkar skarpt og gengi dollarsins fellur.
Sér­fræðingar lýsa ástandinu sem „skipu­lags­lausri söluöldu“ þar sem vaxandi van­traust á efna­hags­stefnu Bandaríkjanna hefur orðið til þess að fjár­festar flýja eignir í Bandaríkjunum og beina fjár­magninu í auknum mæli til Evrópu.
Ávöxtunar­krafa 10 ára ríkis­skulda­bréfa Bandaríkjanna hefur hækkað um 0,19 pró­sentu­stig og stendur í 4,58% þegar þetta er skrifað.
Það markar hæstu ávöxtun frá febrúar og stað­festir að markaðurinn er á leið í sína verstu viku síðan árið 2019, sam­kvæmt Bloom­berg US Treasury Index en Financial Times greinir frá.
Frá því í byrjun vikunnar hefur ávöxtunin hækkað úr undir 3,9%, sem þýðir veru­legt verð­fall.

Ástæðuna má meðal annars rekja til röð til­viljana­kenndra að­gerða í utan­ríkis- og við­skipta­stefnu Donalds Trump, þar sem nýjum tollum hefur verið beitt gegn Kína á sama tíma og til­raunir eru gerðar til að hlífa banda­lags­ríkjum með tíma­bundnum undanþágum.
Fjár­festar virðast telja að stefna Bandaríkjanna sé bæði ófyrir­sjáan­leg og óstöðug – og bregðast við með því að selja eignir.
Söluþrýstingurinn hefur verið aukinn enn frekar vegna versnandi lausa­fjár­stöðu á markaðnum.
Við­skipta­menn segja að erfitt sé að koma við­skipta­fyrir­mælum í gegn án þess að hreyfa verðið óeðli­lega mikið.

Sér­fræðingar hjá JP­Morgan benda á að „dýpt markaðarins“ – mæli­kvarði á getu markaðarins til að taka við stórum við­skiptum án veru­legra verðbreytinga – hafi hrunið þessa vikuna.
Sam­kvæmt yfir­manni ríkis­skulda­bréfa­við­skipta hjá einu stærsta bandaríska skulda­bréfastýringarfélaginu var markaðs­dýpt á föstu­dag allt að 80% undir meðaltali. „Það er mjög lítil lausa­fjár­staða í dag – jafn­vel smávið­skipti hafa stór áhrif á ávöxtun,“ sagði hann.

Fjár­magn flýr til Evrópu

Ávöxtunar­krafa þýskra 10 ára Bunds-bréfa lækkaði um 0,04 pró­sentu­stig í 2,54% líkt og önnur skulda­bréf í Evrópu sem til aukinnar eftir­spurnar eftir evrópskum ríkis­skulda­bréfum. Þetta telja margir merki um raun­veru­legan fjár­magns­flótta frá Bandaríkjunum til Evrópu, þar sem evran, pundið og jen styrkjast á sama tíma og dollarinn veikist.
Gengi dollarsins féll um allt að 1,8% á föstu­dag gagn­vart helstu gjald­miðlum heims.

„Við erum farin að sjá hreyfingar sem benda til meira en bara eðli­legs sveiflu­leika,“ sagði evrópskur banka­stjórnandi í sam­tali við FT. „Við erum að horfa á djúp­stætt van­traust á öflugasta skulda­bréfa­markað heimsins.“

Sam­hliða versnandi neyslu­vísum og verðbólgu­væntingum – og áskorunum um óstöðug við­skipta­sam­bönd – virðist trú fjár­festa á stöðug­leika Bandaríkjanna að dofna.

For­stjórar stærstu fjár­mála­stofnana heims, þar á meðal Jamie Dimon hjá JP­Morgan og Larry Fink hjá BlackRock, hafa nú varað við al­var­legri ókyrrð og líkt ástandinu við fjár­mála­kreppuna og heims­far­aldurinn.