Bandarískur skuldabréfamarkaður upplifir nú dýpstu hræringar í mörg ár, þar sem ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkar skarpt og gengi dollarsins fellur.
Sérfræðingar lýsa ástandinu sem „skipulagslausri söluöldu“ þar sem vaxandi vantraust á efnahagsstefnu Bandaríkjanna hefur orðið til þess að fjárfestar flýja eignir í Bandaríkjunum og beina fjármagninu í auknum mæli til Evrópu.
Ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa Bandaríkjanna hefur hækkað um 0,19 prósentustig og stendur í 4,58% þegar þetta er skrifað.
Það markar hæstu ávöxtun frá febrúar og staðfestir að markaðurinn er á leið í sína verstu viku síðan árið 2019, samkvæmt Bloomberg US Treasury Index en Financial Times greinir frá.
Frá því í byrjun vikunnar hefur ávöxtunin hækkað úr undir 3,9%, sem þýðir verulegt verðfall.
Ástæðuna má meðal annars rekja til röð tilviljanakenndra aðgerða í utanríkis- og viðskiptastefnu Donalds Trump, þar sem nýjum tollum hefur verið beitt gegn Kína á sama tíma og tilraunir eru gerðar til að hlífa bandalagsríkjum með tímabundnum undanþágum.
Fjárfestar virðast telja að stefna Bandaríkjanna sé bæði ófyrirsjáanleg og óstöðug – og bregðast við með því að selja eignir.
Söluþrýstingurinn hefur verið aukinn enn frekar vegna versnandi lausafjárstöðu á markaðnum.
Viðskiptamenn segja að erfitt sé að koma viðskiptafyrirmælum í gegn án þess að hreyfa verðið óeðlilega mikið.
Sérfræðingar hjá JPMorgan benda á að „dýpt markaðarins“ – mælikvarði á getu markaðarins til að taka við stórum viðskiptum án verulegra verðbreytinga – hafi hrunið þessa vikuna.
Samkvæmt yfirmanni ríkisskuldabréfaviðskipta hjá einu stærsta bandaríska skuldabréfastýringarfélaginu var markaðsdýpt á föstudag allt að 80% undir meðaltali. „Það er mjög lítil lausafjárstaða í dag – jafnvel smáviðskipti hafa stór áhrif á ávöxtun,“ sagði hann.
Fjármagn flýr til Evrópu
Ávöxtunarkrafa þýskra 10 ára Bunds-bréfa lækkaði um 0,04 prósentustig í 2,54% líkt og önnur skuldabréf í Evrópu sem til aukinnar eftirspurnar eftir evrópskum ríkisskuldabréfum. Þetta telja margir merki um raunverulegan fjármagnsflótta frá Bandaríkjunum til Evrópu, þar sem evran, pundið og jen styrkjast á sama tíma og dollarinn veikist.
Gengi dollarsins féll um allt að 1,8% á föstudag gagnvart helstu gjaldmiðlum heims.
„Við erum farin að sjá hreyfingar sem benda til meira en bara eðlilegs sveifluleika,“ sagði evrópskur bankastjórnandi í samtali við FT. „Við erum að horfa á djúpstætt vantraust á öflugasta skuldabréfamarkað heimsins.“
Samhliða versnandi neysluvísum og verðbólguvæntingum – og áskorunum um óstöðug viðskiptasambönd – virðist trú fjárfesta á stöðugleika Bandaríkjanna að dofna.
Forstjórar stærstu fjármálastofnana heims, þar á meðal Jamie Dimon hjá JPMorgan og Larry Fink hjá BlackRock, hafa nú varað við alvarlegri ókyrrð og líkt ástandinu við fjármálakreppuna og heimsfaraldurinn.