Skipulagsstofnun hefur samþykkt umhverfismat Landeldis hf. um fyrirhugaða framleiðsluaukningu í Ölfusi. Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunarinnar um mat á umhverfisáhrif sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.
Stofnunin telur að helsta álitamálið í tengslum við fyrirhugaða framleiðsluaukningu Landeldis hf. sé möguleg áhrif á grunnvatn og að ákvarðanir um nýtingu verði teknar á grundvelli upplýsinga um áhrif vatnstökunnar á grunnvatnskerfin.
„Frá upphafi þarf að vera skýrt að áform framkvæmdaaðila fyrir svo stórfelldri nýtingu skerði ekki möguleika annarra og sér í lagi nærliggjandi þéttbýlis til öflunar á fersku vatni til framtíðar,“ segir í skýrslunni.
Einnig kemur fram að fyrirhuguð stækkun komi til með að auka rask á eldhrauni sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. „Hraunið er hins vegar talsvert sandorpið og hefur því að mörgu leyti glatað einkennum sem mynda verndargildi þess, en stofnunin telur að áhrif á hraunið verði nokkuð neikvæð. Áhrif á landslag og ásýnd sem og á útivist verði svæðisbundið talsvert neikvæð.“
Að lokum telur Skipulagsstofnun að leggja þurfi áherslu á vandaða hönnun mannvirkja, umhverfismótun og góðan frágang lóðar þar sem slík atriði er líkleg til að draga mjög úr ásýndaráhrifum framkvæmdarinnar.