Lánshæfisfyrirtækið Moody's tilkynnti í dag að formlega hefði verið tekið til skoðunar að hækka lánshæfismat Kviku banka í kjölfar þess að ákveðið var að hefja viðræður um samruna Kviku og Íslandsbanka.

„Á meðan á skoðunartíma stendur gæti lánshæfismat Kviku verið hækkað, verði af samruna við Íslandsbanka hf., þá er einnig talið ólíklegt að lánshæfismat Kviku verði lækkað á tímabilinu,“ segir í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar.

„Verði ekki af samruna félaganna mun Moody‘s staðfesta núverandi lánshæfismat Kviku, með fyrirvara um að félagið haldi áfram að sýna fram á sterka rekstrarniðurstöðu.“

Moody‘s hefur til skoðunar er að hækka Baa1 langtíma og Prime-2 skammtíma lánshæfismat Kviku á innlánum og Baa2 langtíma og Prime-2 skammtíma lánshæfismat Kviku sem útgefanda óveðtryggðra skuldabréfa.

„Moody‘s horfir einnig til hækkunar á ýmsum undirþáttum lánshæfismatsins. Horfur lánshæfiseinkunna Kviku vegna innlána og sem útgefanda voru áður metnar stöðugar.“

Stjórn Íslandsbanka samþykkti á fimmtudaginn að hefja samrunaviðræður við Kviku banka um mögulegan samruna félaganna tveggja. Stjórn Íslandsbanka sagði að í samrunanum gætu falist hagræðingartækifæri og tækifæri til sóknar, m.a. með breiðara vöruframboði og lægri kostnaði.