Sjö þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli innviðaráðherra að láta gera markaðskönnun á póstmarkaði til þess að yfirsýn fáist yfir hvaða þáttum alþjónustu, þ.e. lágmarkspóstþjónustu, er þegar sinnt á viðskiptalegum forsendum.

Sjö þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli innviðaráðherra að láta gera markaðskönnun á póstmarkaði til þess að yfirsýn fáist yfir hvaða þáttum alþjónustu, þ.e. lágmarkspóstþjónustu, er þegar sinnt á viðskiptalegum forsendum.

„Jafnframt þarf að greina hvort önnur fyrirtæki en Íslandspóstur ohf. myndu veita lágmarkspóstþjónustu á þeim fáu stöðum þar sem samkeppni er ekki til staðar ef þau þyrftu ekki að keppa við niðurgreiddan rekstur,“ segir í greinargerð þingsályktunartillögunnar.

„Markmiðið væri að greina hvort hægt sé að leysa alþjónustuskyldu með öðrum hætti en útnefningu Íslandspósts sem alþjónustuveitanda til ársins 2030, t.d. með útboði ef þörf er á. Í kjölfar útboðs er mikilvægt að ráðist verði í sölu á Íslandspósti ohf.“

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Bryndís Haraldsdóttir. Aðrir flutningsmenn eru Diljá Mist Einarsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason.

Markmiðum um hagkvæmni og aukna samkeppni ekki náð

Einkaréttur Íslandspósts ohf. til að veita þjónustu á ákveðnum hlutum íslenska póstmarkaðarins var felldur niður með nýjum lögum um póstþjónustu sem tóku gildi árið 2019. Með framvarpinu var horft til að alþjónusta í pósti yrði áfram tryggð, þess getið hvernig hún skuli skilgreind og veitt og hvernig skuli fara með kostnað við alþjónustu ef hún er ekki leyst af hendi á markaðslegum forsendum.

„Nú eru tæplega fimm ár liðin frá gildistöku laganna og ljóst að markmiðum þeirra um hagkvæmni og aukna samkeppni hefur ekki verið náð.

Keppinautar Íslandspósts ohf. hafa kvartað mikið undan fyrirtækinu og bágu eftirliti af hálfu eftirlitsaðila. Telja þeir að verið sé að veita framlag vegna alþjónustu þar sem virk samkeppni sé til staðar og því ekki keppt á jafnræðisgrundvelli.“

Ekki stuðst við sömu reglur og erlendis við útreikning á alþjónustuframlagi

Þingmennirnir benda á að í greinargerð með frumvarpi til laga um póst þjónustu hafi innviðaráðuneytið (sem hét þá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti) sagt að með frumvarpinu sé gert ráð fyrir að hægt verði að framkvæma markaðskönnun þegar fram líða stundir.

Ráðuneytið taldi það hins vegar ótímabært að framkvæma markaðskönnunina strax við gildistöku laganna. Nauðsynlegt væri að sjá hvernig næstu misseri og ár þróast.

„Nú eru liðin tæplega fimm ár frá því að lögin tóku gildi og hefur mikið gengið á á póstmarkaði síðan. Útlit er fyrir að ekki hafi verið stuðst við sömu reglur hér og erlendis við útreikning á alþjónustuframlagi. Þannig hafi framlag verið veitt vegna þjónustu sem veitt er á markaðsforsendum af samkeppnisaðilum,“ segir í þingsályktunartillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

„Ljóst er að ekkert fyrirtæki veitir Íslandspósti samkeppni í öllum þáttum póstþjónustu en ekki er hægt að útiloka að slíkt gæti gerst ef Íslandspóstur nyti ekki niðurgreiðslu.“

Hægt að ná fram stærðarhagkvæmni með útvistun verkefna

Þingmennirnir segja að af stuttri yfirferð yfir sambærilega þjónustu ýmissa fyrirtækja að dæma sé ljóst að líklega er samkeppni í einhverri mynd í öllum þáttum póstþjónustu á Íslandi. Stór hluti þeirrar þjónustu veittur á stöðum sem þáverandi Póst- og fjarskiptastofnun skilgreindi sem óvirk markaðssvæði þar sem alþjónustuveitandi getur sótt um framlag frá ríkinu vegna þjónustu ef um tap er að ræða.

„Það virðist alveg ljóst að hægt er að ná fram stærðarhagkvæmni við veitingu lágmarkspóstþjónustu með útvistun verkefna Íslandspósts ohf. til sambærilegra aðila sem sérhæfa sig í mismunandi þáttum póstþjónustu víða um landið. Það er ekki löglegt að niðurgreiða póstþjónustu sem veitt er á venjulegum viðskiptagrundvelli.“

Veita þjónustu í flestum „óvirkum markaðssvæðum“

Bent er á að Póstdreifing sé með þjónustu sex daga vikunnar í 44 af þeim 58 póstnúmerum í þéttbýli sem metin eru á óvirku markaðssvæði af hálfu eftirlitsaðila. Þjónustan sé keimlík bréfadreifingu Íslandspósts en sú þjónusta er veitt tvo daga vikunnar.

Samskip og Eimskip veiti í sömu póstnúmerum þjónustu tvo til fimm daga vikunnar „sem mætti kalla alþjónustu í þjónustuþáttunum flutningi um landið og afhendingu pakka“. Jafnframt reki þessi fyrirtæki móttöku- og vinnslustöð í Reykjavík, líkt og Íslandspóstur, en fjölmargar stöðvar í þeirra eigu eða samstarfsaðila þeirra er einnig að finna víða um landið.

Fram kemur að í 56 af 58 póstnúmerum á óvirkum markaðssvæðum í þéttbýli séu reknir einhvers konar afgreiðslustaðir „sem vel gætu rúmað hefðbundin störf afgreiðslustaða vegna alþjónustu“. Matið byggir á afgreiðslustöðum samkeppnisaðila, svo sem Dropp og flutningafyrirtækja, samkvæmt heimasíðum þeirra, ásamt bensínstöðvum og matvöruverslunum, samkvæmt þjónustukorti Byggðastofnunar.