Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem ætlað er að leggja mat á fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja. Starfshópurinn skilar ráðherra niðurstöðum sínum fyrir lok árs 2023, að því er kemur fram í tilkynningu innviðaráðuneytisins.
Þar segir að starfshópurinn hafi það hlutverk að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur og kosti og galla hverrar fyrir sig. Jafnframt beri starfshópnum að meta arðsemi framkvæmdarinnar.
„Loks á starfshópurinn að leggja fram kostnaðarmetna áætlun um þær jarðfræðilegu rannsóknir, sem og aðrar rannsóknir, sem framkvæma þarf, svo hægt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika framkvæmdarinnar.“
Starfshópurinn verður skipaður fimm sérfræðingum, þar af einum tilnefndum af Vestmannaeyjabæ og einum tilnefndum af Vegagerðinni.
Kostnaðarmat unnið fyrir 15 árum
Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. lauk kostnaðarmati á gerð jarðganga sem vegtengingu milli Vestmannaeyja og Landeyja árið 2007. Niðurstaða matsins var sú að tæknilega væri mögulegt að gera slík göng og að kostnaðurinn yrði líklega á bilinu 50-80 milljarðar króna eftir gerð ganganna „en áhætta er talin mikil“.
Sé framangreind fjárhæð núvirt má ætla að kostnaðarmatið hafi hljóðað upp á tæplega 100-160 milljarðar króna, sé miðað við vísitölu neysluverðs.
Áherslumál hjá bæjarstjórninni
Í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna á síðasta ári samþykkti ný bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar tillögu um að bæjarstjóra og bæjarráði yrði falið að taka upp samtal við stjórnvöld til að kanna fýsileika á gerð jarðganga á milli lands og Eyja.
Í greinargerð með tillögunni var m.a. vísað í meistararitgerð þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þjóðhagslegur ábati af Vestmannaeyjagöngum geti verið um 95 milljarðar króna.
„Ekki þarf að fjölyrða um sparnað sem fælist í gerð jarðganga en sem dæmi má nefna að rekstur Herjólfs er á ári um 650 milljónir, dýpkun Landeyjahafnar kostar um 400 milljónir á ári og nýtt skip, sem endurnýja þarf á 10-15 ára fresti kostar um 5 milljarða,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar frá því í júní 2022.
„Þá er ljóst að samfélagslegur kostnaður vegna frátafa í siglingum til Landeyjahafnar er gríðarlegur ár hvert. Aukin heldur er ljóst að mikill kostnaðarauki felst í lagningu sæstrengja á hafsbotni milli lands og eyja, t.d. vatnsleiðslu, rafmagnsleiðslu og ljósleiðara í samanburði við lagningu í göngum.“