Samkeppniseftirlitið setti fyrst skilyrði á starfsemi Símans á grundvelli sáttar þeirra á milli árið 2013 og var sú sátt endurskoðuð árið 2015 en meginmarkmiðið var að tryggja sjálfstæði Mílu, sem þá var dótturfélag Símans. Við sölu Mílu til Ardian í fyrra féllu niður skilyrði sáttarinnar frá 2015 gagnvart Mílu en áfram stóðu skilyrði gagnvart Símanum.
„Meginástæðan fyrir sáttinni á sínum tíma var eignarhald Símans á Mílu og núna þegar sú ástæða er farin þá hefði maður talið að þessi sátt ætti sjálfkrafa að hverfa. Þess utan, óháð Mílu, þá hafa markaðsaðstæður í fjarskiptum breyst í grundvallaratriðum síðastliðinn áratug og Síminn er ekki í markaðsráðandi stöðu á neinum markaði, hvorki í fjarskiptum né fjölmiðlum,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, en ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að fella ekki niður skilyrðin kom þeim á óvart.
„Við teljum að svona ósamhverf reglustýring, að vera með sérstakar hömlur á fyrirtæki sem er ekki markaðsráðandi en ekki á öðrum, sé ekki í þágu hagsmuna neytenda.“
Að sögn Orra eru ýmis atriði í ákvörðuninni umhugsunarverð, ekki síst hversu stór hluti rökstuðnings eftirlitsins sé byggður á því að keppinautar Símans vilji viðhalda hömlum.
„Það er eitt sem skín í gegnum þennan úrskurð þeirra, og reyndar marga aðra sem okkur finnst vera plagsiður á Íslandi, alla vega hvað varðar fjarskiptin, og það er þessi venja að eftirláta markaðsaðilum að stórum hluta að ákveða reglustýringu um keppinauta sína.“
„Auðvitað skoðum við síðan bara réttarstöðu okkar þar sem það er mjög dýrt og mjög langdregið að reyna að nýta úrræði réttarríkisins vegna ákvörðunar eftirlitsaðila.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast veffréttaútgáfu kl. 19.30 í kvöld með því að smella á Blöðin efst á forsíðu vb.is