Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, segir að stjórn bankans hafi ekki talið rétt að teygja sig lengra í tilboði til Kviku banka en sem kunnugt er ákvað stjórn Kviku banka að fallast á beiðni Arion banka um samrunaviðræður fram yfir Íslandsbanka. Hann útilokar þó ekki að Íslandsbanki taki aftur upp þráðinn ef viðræður Arion og Kviku renna út í sandinn.
Í tölvupósti til starfsmanna bankans í gær sagðist Jón Guðni sannfærður um að önnur spennandi tækifæri bíði Íslandsbanka, bæði á sviði innri og ytri vaxtar, hérlendis sem erlendis.
„Þetta er bæði liður í að skoða tækifæri víðar og áhættudreifing á sama tíma. Við erum að taka þátt í sambankalánum með erlendum bönkum og svo höfum við lengi verið í Norður-Atlantshafi í sjávarútvegi. Við erum að víkka það aðeins út og fara til dæmis í innviði, þar erum við um leið að sanka að okkur þekkingu sem getur nýst hérna heima, bæði varðandi strúktúr á slíkum samningum og sambönd upp á aðila til að fá inn í verkefni hérna heima,“ segir Jón Guðni í samtali við Viðskiptablaðið um möguleg verkefni utan landsteinana.
„Það er eitthvað sem við erum búin að vera í núna síðasta árið og höldum áfram að byggja á því. Svo höfum við alveg áhuga á að skoða einhver tækifæri, minni lánasöfn eða mögulega eitthvað í eignastýringu út fyrir landsteinana. Það er eitthvað sem við erum bara rétt að byrja að skoða.“
Spurður um hvernig hann sjái fyrir sér vöxt erlendis og hversu hraður hann getur verið segir Jón Guðni það misjafnt.
„Þátttaka í sambankalánum gerist jafnt og þétt en ef við sjáum tækifæri til að kaupa eitthvað lánasafn eða lítinn lánveitanda þá getur það gerst í einum rykk. Bara til að setja það í samhengi, þá eru eignir okkar erlendis í lánasafninu innan við tvö prósent. Það er mjög lítill hluti og bara það að fara upp í 5-10% til að byrja með, það gefur okkur vöxt án þess að það verði mjög stór hluti af efnahagnum.“