Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), telur að endurskoða þurfi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til 2040 og víkka út vaxtarmörk til að reyna að flýta íbúðauppbyggingu. Upphaflegar forsendur svæðaskipulagsins „eru algjörlega brostnar“.

„Það þarf auðvitað að velta því upp hvort að ríkisvaldið þurfi auknar heimildir til inngripa í skipulagsmálum,“ sagði Sigurður á fundi HMS um nýja íbúðatalningu í dag.

Umrætt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015-2040, þar sem vaxtamörk höfuðborgarsvæðisins eru ákveðin, er lögfest. Sigurður segir að hvert og eitt sveitarfélag hafi í reynd neitunarvald, þ.e. þau þurfa öll að vera sammála um breytingar á svæðisskipulaginu.

„En ef það er komin upp sú staða eins og núna að forsendur eru algjörlega brostnar og ef að sveitarfélögin vilja ekki endurskoða þetta þá hlýtur ríkið að þurfa að taka einhverja ábyrgð á þeirri stöðu.“

Sigurður sagðist einnig svolítið hugsi yfir því að ríkisvaldið skuli samhliða endurskoðun samgöngusáttmálans ekki hafa sett meiri áherslu á breytingar í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu með það fyrir augum að hraða íbúðauppbyggingunni.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, hefur kallað eftir endurskoðun á vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins. Það hafi þó staðið á Reykjavíkurborg sem „hefur staðið fast við þéttingarstefnu sína undanfarin ár“, sagði Ásdís í grein í Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum.

Sigurður sagði svæðisskipulagið, sem var samþykkt í júní 2015, vera vandað skipulag og að mikil vinna og greining hafi legið þar að baki. Markmið skipulagsins hafi m.a. verið að þétta byggð og auka lífsgæði.

Hins vegar hafi forsendur þess ekki staðist. Íbúafjöldinn var um 200 þúsund á höfuðborgarsvæðinu árið 2012 þegar greiningarnar voru gerðar og gert var ráð fyrir að íbúum svæðisins myndi fjölga um 30 þúsund til ársins 2025.

„Reyndin var að þeim fjölgaði um 50 þúsund, eða 20 þúsund umfram forsendur,“ sagði Sigurður. Hann bætti við að þessi fjölgun umfram spár þýði að íbúðum hefði þurft að fjölga um 8-10 þúsund til viðbótar á umræddu tímabili, ef við miðað er við forsendur um 2-2,5 íbúa í hverri íbúð.

Mynd tekin úr kynningu Sigurðar.

Á fundinum dró Sigurður fram niðurstöður könnunar meðal félagsmanna SI þar sem 59% svarenda sögðust telja að framboð á lóðum hafi heft uppbyggingu á síðustu 12 mánuðum. Þriðjungur svarenda töldu svo ekki vera.