Skógarböð ehf. reka baðaðstöðu og veitingastað gegnt Akureyri við rætur Vaðlaheiðar. Aðstaðan var opnuð fyrir gestum í maí 2022 en á því rekstrarári nam veltan 466 milljónum króna og félagið hagnaðist um 112 milljónir.

Árið 2023 var mjög gott rekstrarár fyrir Skógarböðin því þá nam veltan 787 milljónum og hagnaðurinn 153 milljónum. Eignir félagsins voru metnar á ríflega 1,3 milljarða króna um síðustu áramót en árið áður voru þær metnar á rúmlega 1,2 milljarða. Eigið fé félagsins hækkar úr 477 milljónum í 659 á milli ára.

Hjónin Sigríður María Hammer og Finnur Aðalbjörnsson.
Hjónin Sigríður María Hammer og Finnur Aðalbjörnsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stjórn félagsins, sem í meirihlutaeigu hjónanna Finns Aðalbjörnssonar og Sigríðar Maríu Hammer, leggur til arðgreiðslu upp á 38 milljónir vegna rekstrarársins 2023. Hjónin keyptu jörðina í september 2020 og framkvæmdin sjálf tók aðeins fjórtán mánuði. Hugmyndin að Skógarböðunum kviknaði út frá því að heitt vatn hafði runnið ónýtt til sjávar úr heitavatnsæð sem opnaðist þegar borað var fyrir Vaðlaheiðargöngum árið 2014.

Fyrir ári síðan var greint frá því að eigendur Skógarbaðanna hygðust byggja 120 herbergja hótel við hlið Skógarbaðanna. Þeir hafa nú farið í samstarf við Íslandshótel um uppbygginguna en gert er ráð fyrir því að hótelið opni eftir tvö ár.

Hjónin Finnur og Sigríður eru sem áður sagði stærstu hluthafar Skógarbaða með 51,25% hlut í gegnum félagið N10b ehf. Auk þess á Finnur ehf., verktakafyrirtæki í eigu Finns, 5,02% hlut í baðlóninu.

Næststærsti hluthafi Skógarbaða er félagið Bjarnason Holding ehf. sem er í eigu Birkis Bjarnasonar, landsliðsmanns í knattspyrnu. Það félag á 13,06%. Móðurfélag bílaleigunnar Hölds og rafverktakafyrirtækið Rafeyrir fylgja þar á eftir með 10,5% hlut hvort um sig. Norðurorka á 4,54% í Skógarböðunum. Þá eiga félögin N10 ehf., í eigu Kristins H. Svanbergssonar, og Vað ehf., í eigu Sigrúnar Vésteinsdóttur og Sigurðs Birkis Sigurðssonar, hvor um sig 3,01%‏ hlut.