Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, gagnrýnir harðlega innleiðingarferlið um breytingar á birtingu gagna í stafrænum pósthólfum. Hann segir að samtökin hafi heyrt um dæmi þar sem búið sé að úrskurða í máli hjá fólki sem vissi ekki einu sinni að það væri með mál til meðferðar.

Samkvæmt fyrirmælum sem tóku í gildi 12. október 2023 þá teljast gögn sem hafa verið gerð aðgengileg í pósthólfi á Stafrænt Ísland birt viðtakanda. Ekki er nauðsynlegt að viðkomandi hafi skráð sig inn í pósthólfið og kynnt sér gögnin, heldur teljast gögnin birt frá og með því tímamarki sem þau voru gerð aðgengileg í pósthólfinu.

„Stærsti hluti samfélagsins er ekki hangandi inni á island.is á hverjum degi en nú er komin upp sú staða að einstaklingur gæti fengið mikilvæg gögn send þangað inn. Ef sá einstaklingur hefur ekki sjálfur valið þann eiginleika að fá tilkynningu með SMS-skeyti þá hanga gögnin þar inni og eru svo úrskurðuð fyrir einstaklinginn þar sem hann „vanrækti“ skilaboðin sem hann vissi ekki einu sinni að hann væri með,“ segir Breki.

Breytingarnar eiga sér nokkurra ára forsögu en í svari frá ríkissaksóknara segir að tilgangurinn með innleiðingu á stafrænu pósthólfi sé að stuðla að og tryggja samræmda og skilvirka framkvæmd til að miðla gögnum og uppsýningum við meðferð mála hjá lögreglu og ákæruvaldi. Hugmyndin var því að auka gagnsæi og hagkvæmni.

Breki segir að Neytendasamtökin fagni slíkum breytingum en segir innleiðingarferlið sjálft forkastanlegt. Stjórnarfrumvarpið hafi fyrst komið frá fjármála- og efnahagsráðherra og var síðan samþykkt árið 2021.

Gildistaka af hálfu ríkissaksóknara átti sér síðan stað í október í fyrra og bendir Breki á að lítil sem engin umræða hafi átt sér stað í fjölmiðlum og kannast ekki við neitt fjölmiðlaviðtal þar sem málið var tekið fyrir.

Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að spyrja hvort einhvers konar fréttatilkynning hafi verið gefin út þess efnis þegar fyrirmælin tóku gildi. Þá var einnig spurt að því hvernig ráðuneytið gæti fært rök fyrir því að fólk í samfélaginu fengi sanngjarna málsmeðferð ef fáir vita að stafrænt pósthólf sé nú eina miðlunarleiðin fyrir mikilvæg gögn.

„Fyrir gildistöku laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda var birt frétt um samþykkt þeirra á vef Stjórnarráðsins. Jafnframt var birt tilkynning þegar sett var reglugerð um framkvæmd laganna,“ segir í svari frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Þar segir einnig að samkvæmt innleiðingaráætlun sé gert ráð fyrir að skylda til birtingar með pósthólfinu í áföngum út árið 2024. Þá hefur verið lögð áhersla á að hver opinber aðili sem noti pósthólfið beri ábyrgð á að notkun þess sé í samræmi við þau lög sem gilda í starfseminni og að upplýsa einstaklinga um að tilkynningar verði eftir innleiðinguna sendar í pósthólfið.

Breki ítrekar að hugmyndin um stafrænt pósthólf í miðlægri gátt sé ekki slæm sem slík en að stórar breytingar sem þessar, sem geta varðað mikla hagsmuni neytenda, verði að vinna vel og innleiða í smáum skrefum.

„Það er til dæmis lágmark að málið sé kynnt almenningi vel og rækilega. Auglýsing í stjórnartíðindum gerir ekkert fyrir venjulegt fólk. Fæst fylgjumst við reglulega með island.is og því væri almenn kurteisi að láta fólk vita þegar það fær mikilvæg skjöl í pósthólfið sem það þarf að bregðast við. Slík tækni er til og er tiltölulega einföld. Þá þarf að huga sérstaklega að því að viðkvæmir hópar verði ekki út undan, bæði hvað varðar kynningu og aðgengi í pósthólfinu. Þetta er bara skólabókardæmi um það hvernig eigi ekki að innleiða kerfisbreytingar.“

Nýir tímar, gömul saga

Guðmundur Ásgeirsson, varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að umræðan um gagnkvæmni á birtingu gagna sé ekki ný af nálinni. Eftir hrunið 2008 reyndist gamla kerfið, þar sem bréf voru send heim til fólks, gallað þar sem bréfin komust gjarnan ekki til skila.

„Á þeim tíma var mikið um nauðungarsölur og voru margir að missa heimili sín. Þá var einnig verið að úrskurða í málum fyrir hönd aðila en sýslumenn héldu því fram að bréfin hafi verið send til lögheimilis þessara einstaklinga. Vandamálið var hins vegar að margir voru þá búnir að flytja og fengu þar með aldrei bréfin í hendurnar.“

Hann segir að þar sem stafræna þróunin sé á fleygiferð séu alltaf ný mál að koma upp. Hingað til hafi aðeins frumrit skuldaskjala á pappír til að mynda talist aðfararhæf en hafandi starfað í tölvugeiranum þá hefur Guðmundur áhyggjur af því að hægt verði að nota tölvugögnin ein og sér til að ganga að eigum fólks og jafnvel selja ofan af því heimilið.

„Þessi hugmynd um að sleppa pappírnum og koma öllu í stafrænt form. Þetta er hugmynd sem myndast í einhverri búbblu hjá ríkisstarfsmönnum þar sem þær breytingar eru þegar að eiga sér stað innan veggja stjórnvalda en eru ekki endilega að eiga sér stað í heimahúsum almennings,” segir Guðmundur.

Hagsmunasamtök heimilanna gerðu athugasemd á sínum tíma við frumvarpið í apríl 2021 og bentu á að það væri aðeins eitt fyrirtæki í eigu einkaaðila, einkum fjármálafyrirtækja, sem bjóði upp á svokölluð rafræn skilríki samkvæmt lögum um rafrænar undirskriftir nr. 28/2001.

Að mati samtakanna var það með öllu óréttmætt að þvinga neytendur í viðskipti við einkafyrirtæki í einokunarstöðu, með því að krefjast auðkenningar með rafrænum skilríkum svo þeir geti sótt réttindi sín á grundvelli laga. Dæmi voru um að einstaklingar hefðu orðið fyrir alvarlegum réttarspjöllum af þessum ástæðum.

Síðan þá hefur þó íslenska ríkið keypt allt hlutafé í Auðkenni hf. sem gefur út rafrænum skilríki.

„Einnig er óhjákvæmilegt að gera þá athugasemd við 7. gr. frumvarpsins (625. mál á 151. löggjafarþingi) að engan veginn er nægilegt að gera gögn aðeins „aðgengileg“ í rafrænu pósthólfi, svo það hafi sömu réttaráhrif og formleg birting með ábyrgðarsendingu eða stefnuvotti. Réttaráhrif slíkrar birtingar verða að vera háð því skilyrði að viðkomandi einstaklingur hafi raunverulega móttekið umrædd gögn, svo sem með því að opna slíka tilkynningu í rafrænu pósthólfi, eða smella á hann til að staðfesta móttöku. Annars er hætta á að meðferð mála sem varða hagsmuni einstaklinga fari fram án vitundar þeirra.“