Verðbólga í Bretlandi jókst um hálft pósentustig í síðasta mánuði og mælist nú 3,0%, samanborið við 2,5% í desember. Verðbólgan hefur ekki mælst meiri í Brelandi í tíu mánuði. Verðbólgumælingin var yfir spám greinenda, að því er segir í frétt BBC.
Skólagjöld hjá einkaskólum hækkuðu um 13% sem er rakið til þess að virðisaukaskattur var settur á umrædd gjöld um áramótin. Þá kemur fram að matvæli eins og kjöt, brauð, egg og korn hafi hækkað umtalsvert.
Flugfargjöld hækkuðu einnig og ýttu undir verðbólgu en því er spáð að þau muni hækka enn frekar á næstu mánuðum samhliða hækkandi orku- og framfærslukostnaði breskra heimila. Samkvæmt spám mun orkuverð hækka um 5% frá apríl og mun það bæta 85 pundum, eða 15 þúsund krónum, við árleg útgjöld hvers heimilis.
Mörg fyrirtæki í Bretlandi hafa einnig varað við því að skattahækkanir, sem taka í gildi í apríl, muni leiða til hækkunar á vöruverði.
Hagfræðingar höfðu upprunalega búist við 2,8% verðbólgu en hún er þó mun lægri en hún var þegar hún náði hæstu hæðum í október 2022 þegar hún stóð í 11,1%. Englandsbanki lækkaði engu að síður vexti í þessum mánuði niður í 4,5%.