Skor hefur náð samningum um að opna pílustaði og -rými í Óðinsvé í Danmörku og á Glerártorgi á Akureyri. Skor rekur þegar stað í Árósum í Danmörku sem opnaði í júlí í fyrra.
Ekki lúxusíbúðir fyrir ofan
Skor International og City Huset aps hafa samið um leigu á pílurými á 400 fermetra stað í Óðinsvé sem gert er ráð fyrir að opni í nóvember næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Bragi Ægisson, einn eiganda og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins 0101 sem rekur Skor pílustaðina í samstarfi við aðila í veitingageiranum.
„Rýmið sjálft er undir íbúðum og er því verið að tryggja að hljóðeinangrun sé með besta móti. Ekki er talið að íbúðir fyrir ofan séu lúxusíbúðir og óvíst hvaða áhrif það mun hafa,“ segir í tilkynningunni.
Bragi virðist þar í vísa í úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem gerir það að verkum að skemmtistaður Skor við Geirsgötu í miðbæ Reykjavíkur fær ekki að hafa opið til klukkan eitt á nóttunni um helgar og til klukkan 23 á virkum dögum, líkt og Morgunblaðið greindi frá í dag.
Úrskurðarnefndin felldi úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi Skor á Geirsgötu vegna kvartana undan hávaða frá íbúum sem búa fyrir ofan og í kringum staðinn. Staðurinn er á jarðhæð nýrrar byggingar á Hafnartorgi.
Þá hefur Skor undirritað samning við Eik Fasteignafélag um opnun í haust á sérhæfðum pílustað á Glerártorgi á Akureyri.
„Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í deiliskipulagi fyrir Glerártorg og var því ekki talin þörf á sértækum aðgerðum fyrir hljóðvist.“