Á fundi sínum í morgun samþykkti stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) áskorun til aðildarfélaga sinna, annarra fyrirtækja landsins, ríkis og sveitarfélaga um að styðja við sameiginleg samningsmarkmið nýrra kjarasamninga með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði, eins og þeim frekast er unnt.
SA segir í tilkynningu að samningsaðilar séu sammála um að mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum sé að greiða leið kjarasamninga sem vinna gegn þeirri miklu verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hafa hart niður á bæði heimilum og fyrirtækjum.
„Til að það markmið náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð.“
SA og breiðfylking stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðinum hafi tekið höndum saman með það að markmiði að gera langtímakjarasamninga sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.
SA segir að sameiginleg samningsmarkmið nýrra kjarasamninga séu í samræmi við áherslur sínar og ályktanir opinna vinnufunda samtakanna, sem voru haldnir um allt land á liðnum haustmánuðum.