Skortsalar hafa hagnast um 16,2 milljarða dala á undanförnum þremur mánuðum með því að veðja á lækkun hlutabréfaverðs Tesla.
Á sama tíma hefur markaðsvirði fyrirtækisins hrunið um rúmlega 700 milljarða dala, sem hefur leitt til þess að auður Elons Musks, forstjóra Tesla, hefur minnkað um meira en 100 milljarða dala.
Samkvæmt gögnum frá S3 Partners, sem Financial Times greinir frá, hafa fjárfestar sem veðjuðu gegn Tesla safnað þessum bókfærða hagnaði frá því að hlutabréf fyrirtækisins náðu hámarki þann 17. desember.
Þrátt fyrir þennan mikla gróða hafa skortsalar í heild sinni tapað 64,5 milljörðum dala á Tesla frá því að fyrirtækið fór á markað árið 2010.
Samkvæmt FT er verri ímynd fyrirtækisins einn helsti drifkrafturinn að baki falli hlutabréfaverðs Tesla.
Elon Musk hefur undanfarið komið sér í klandur með ummælum sínum um evrópsk stjórnmál sem hefur haft neikvæð áhrif á sölu Tesla-bíla í Evrópu.
Þar að auki hefur Musk, í hlutverki sínu sem yfirmaður niðurskurðarráðuneytis Bandaríkjanna, DOGE, staðið fyrir niðurskurði á opinberum útgjöldum sem hefur valdið úlfúð meðal neytenda.
Per Lekander, framkvæmdastjóri 1,5 milljarða dala vogunarsjóðsins Clean Energy Transition, segir að Musk hafi nánast eyðilagt ímynd Tesla.
„Tesla hafði mjög sterkt vörumerki, en Elon hefur tekist að rústa því. Viðskiptavinir Tesla eru ekki hægrisinnaðir kjósendur í kúrekastigvélum.“
Markaðsaðilar lækka verðmat á Tesla
Greiningaraðilar hjá JPMorgan hafa lækkað verðmat sitt á Tesla fyrir lok árs 2025 úr 135 dölum í 120 dali á hlut. Í nýlegri greiningu segja þeir að erfitt sé að finna fordæmi í bílaiðnaðinum fyrir jafn miklu hruni á virði vörumerkis á jafn skömmum tíma.
Fjárfestar hafa einnig brugðist við með aukinni skortsölu. Á síðasta mánuði hefur fjöldi Tesla-hluta að láni aukist um 16,3% og nemur nú 71,5 milljónum hluta, eða 2,6% af heildarhlutafjölda fyrirtækisins.
Tesla snýst gegn Trump
Annar þáttur sem hefur dregið úr hlutabréfaverði Tesla er efnahagsleg óvissa vegna viðskiptastefnu Bandaríkjaforseta, Donalds Trump.
Áhyggjur eru af því að harðar tollaaðgerðir Trump gætu leitt til þess að Tesla verði fyrir gagnráðstöfunum frá erlendum ríkjum, sem myndi hækka framleiðslukostnað fyrirtækisins í Bandaríkjunum.
Fyrirtækið sendi nýverið bréf til bandarískra stjórnvalda þar sem það varaði við þessum áhrifum.
Tesla verið skotmark skortsala lengi
Árið 2020 voru skortseldir hlutir í Tesla um 300 milljónir talsins, en mikið verðhækkunarskeið sem náði hámarki árið 2021 olli gríðarlegu tapi fyrir skortsala.
Hluta þessara fjárfesta var einfaldlega ýtt út af markaðnum þegar hlutabréf fyrirtækisins tóku stökk upp á við um meira en 1.500% á tveimur árum.
Elon Musk hefur reglulega gert gys að skortsölum. Hann hefur áður sagt að allir sem skorti Tesla væru „dauðadæmdir“ um leið og fyrirtækið næði „fullkominni sjálfkeyrslu“.
Þegar skortsali að nafni David Einhorn gagnrýndi bókhaldsaðferðir Tesla árið 2020 svaraði Musk með háðslegu tísti: „Geðsjúkdómar eru sorglegir, vissirðu að Einhorn þýðir einhyrningur?“
Þrátt fyrir núverandi lækkun hefur Tesla enn sterka stöðu meðal sumra fjárfesta.
Stórir sjóðir eins og Bridgewater Associates, ClearBridge, DE Shaw og Norges Bank hafa aukið við hlutabréfaeign sína í Tesla á undanförnum mánuðum.
Hins vegar eru skiptar skoðanir á framtíð fyrirtækisins.
„Mörg af þessum hlutabréfum eins og Tesla eru í raun orðin eins konar jarmbréf,“ segir Marc Cohodes, skortsali frá Kaliforníu sem þó hefur ekki sjálfur stöðu í Tesla.
„Þegar þau hækka halda allir að þeir séu snjallir. Nú þegar þau falla, valda þau stórfelldum skaða,“ segir Cohodes.