Rúmlega 7,7 milljarða króna velta var með hlutabréf Marels á fjórum viðskiptadögum frá miðvikudegi til mánudags eftir að John Bean Technologies birti árshlutauppgjör á þriðjudaginn í síðustu viku.
Líkt og kunnugt er hefur JBT lagt fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Marels en kaupverðið verður greitt með 35% reiðufé og 65% hlutabréfa í JBT. Fast viðmiðunargengi á hlutum JBT í viðskiptunum er 96,25 Bandaríkjadalir á hlut en dagslokagengi JBT á mánudaginn nam 117 dölum.
Gengi bandaríska félagsins hækkaði um tæplega 23% frá miðvikudegi til mánudags eftir að félagið birti árshlutauppgjör og fór úr rúmum 95 dölum í 117 dali. Dagslokagengi Marels á þriðjudaginn var 522 krónur en gengið lokaði í 580 krónum á mánudaginn.
Erlendir fjárfestingasjóðir hafa verið að kaupa bréf Íslendinga í Marel sem hugnast ekki að eiga hluti í sameinaða félaginu, vegna verðbils á gengi JBT og Marels miðað við yfirtökutilboðið.
Samkvæmt sérfræðingum á verðbréfamörkuðum eru sjóðirnir að skortselja JBT en kaupa jafn mikið á móti í Marel til að festa inn hagnað út frá mismuninum þegar tilboðið gengur í gegn.
Hægt er að lesa nánar um viðskiptin með bréf Marels og JBT hér.