„Skortur á starfsfólki er orðinn alheimsvandamál í upplýsingatæknigeiranum,“ segir Valgerður Hrund Skúladóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Sensa.

Valgerður tekur undir það að mikið vanti af vel menntuðu fólki en segir að upplýsingatæknigeirann vanti fyrst og fremst fólk, hvort sem það sé hámenntað eða ekki. Hún segir allan gang á því hvernig fólk sæki sér menntun og þekkingu.

„Margir þeirra sem stofnuðu fyrstu internetveiturnar hér á landi voru 16 ára strákar sem lærðu allt sjálfir í gegnum tölvuleiki. Ég þekki líka marga sem menntuðu sig í gegnum námskeið hjá fyrirtækjum á borð við Cisco. Mest menntaða fólkið okkar sem starfar í netkerfum fór aðra leið en að stunda hefðbundið háskólanám.“

Sífelldar kollsteypur í geiranum

Valgerður segir tækniuppgötvanir síðastliðinna þriggja áratuga vera stöðugar byltingar.

„Það eru stöðugar kollsteypur í geiranum og miklar breytingar að eiga sér stað. Það eru sífellt ný störf að verða til. Í dag vantar okkur til dæmis mikið af DevOps-sérfræðingum og aðra skýjaarkitekta til að vinna við skýjalausnir.“ Hún bætir við að Covid-faraldurinn hafi ýtt við þeirri þróun að fyrirtæki sæki sér aðstoð og þjónustu við að innleiða skýjalausnir í starfsemi sinni.

Hún segir nauðsynlegt fyrir fólk í geiranum að vera í símenntun og uppfæra þekkingu sína reglulega. „Ef þú ert ekki stöðugt að læra eitthvað nýtt, kynna þér hluti og bæta við þig þekkingu, þá verður þú úreltur. Það á við um alla í upplýsingatæknigeiranum. Þegar mín kynslóð kemur úr skóla var heimurinn allt annar því hlutirnir voru ekki til. Tæknin sem við erum að upplifa núna er sífellt að uppfærast og umhverfið er orðið mjög flókið.“

Valgerður segir að horfa þurfi á hlutina með breiðum hætti til að hægt sé að leysa starfsmannaskortinn, þ.e. hvernig megi valdefla eldra fólk til að taka þátt í geiranum og á sama tíma kynna ungu fólki, alveg niður í grunnskólaaldur, hvað felst í upplýsingatækni.

„Stóra málið er hvernig við undirbúum börnin frá byrjun og kveikjum þennan áhuga. Hvernig við tendrum sköpunarkraftinn í að taka þátt í þessum geira. Það er nefnilega hugmyndaflugið og sköpunarkrafturinn sem hefur svo mikið að segja, og leiðir til stofnun þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem hafa sprottið upp á undanförnum misserum.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.