Stærstu viskíframleiðendur Skotlands hafa lýst yfir vonbrigðum með nýjustu 10% tolla Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og hafa hvatt hann til að halda verslunarviðræðum gangandi.

Forsetinn hefur kynnt nýjustu innflutningstolla sem lagðir verða á vörur eins og viskí og lax. Skoskur eigandi viskífyrirtækis segir í samtali við BBC að þróunin sé mikið áfall fyrir iðnaðinn en hann telur Bandaríkin vera sinn mikilvægasta markað.

Bandaríkin eru stærsti útflutningsmarkaður miðað við verðmæti fyrir skoskt viskí. Samkvæmt tölum frá 2024 nam útflutningurinn rúmlega 1,2 milljörðum dala.

Kate Forbes, aðstoðarforsætisráðherra Skotlands, tekur í sama streng og segist hafa áhyggjur af því að tollarnir muni hafa neikvæð áhrif á skoska hagkerfið.

Trump hefur haldið því fram að tollarnir séu til þess gerðir að hvetja Bandaríkjamenn til að kaupa fleiri bandarískar vörur frekar en erlendar.

Anthony Wills, eigandi eimingarfyrirtækisins Kilchoman, á eyjunni Islay, segir að tollarnir muni koma til með að hafa mikil áhrif á viskíiðnaðinn.

„Fyrir okkur persónulega er þetta 10% af okkar sölu, þannig þetta verður greinilega mikið áfall, sérstaklega með núverandi efnahagsmótvindi sem við erum öll að upplifa. Okkur mun finnast þetta mjög erfitt og mjög krefjandi.“

Þegar Trump setti 25% toll á viskí árið 2019 kostaði það viskíiðnaðinn um 790 milljónir dala á tveggja ára tímabili. Gjaldskráin kom þá vegna deilna milli Bandaríkjanna og ESB um ríkisstyrki til Airbus, deila sem var svo leyst árið 2021.