Skráð atvinnuleysi í október var 3,4% og hækkaði úr 3,3% frá september. Í október 2023 var atvinnuleysið hins vegar 3,2%. Vinnumálastofnun spáir því í nýrri mánaðarskýrslu að atvinnuleysi verði á bilinu 3,4% til 3,6% í nóvember.

Atvinnulausir voru 7.487 í lok október, samanborið við 7.171 í lok september. Alls höfðu 1.284 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok október og fækkaði um 19 frá september. Til samanburðar var fjöldinn 1.137 í október 2023.

Alls voru 4.049 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok október og fjölgaði um 157 frá september. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var 54% í lok október.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 5,2% í september og tvöfaldaðist frá fyrri mánuði.

Vinnumálastofnun birti í kjölfarið tilkynningu á vef sínum þar sem stofnunin sagði engin skýr merki um að atvinnuleysi sé að aukast umfram eðlilegar árstíðasveiflur.

Vinnumálastofnun og Hagstofan notist við mismunandi aðferðafræði sem geti skýrt hvers vegna niðurstöðurnar séu ólíkar.

„Vinnumálastofnun reiknar meðalfjölda atvinnulausra á skrá yfir mánuðinn, þ.e. eingöngu þeir sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum og reiknar atvinnuleysi út frá þeim fjölda en Hagstofan vinnur út frá vinnumarkaðskönnun þar sem haft er samband við ákveðið úrtak úr Þjóðskrá og niðurstöður byggja á svörum þeirra.“