Skráð atvinnuleysi í júní var 3,4% og lækkaði úr 3,7% frá maímánuði. Til samanburðar var atvinnuleysið 3,1% í júní 2024. Í mánaðarlegri skýrslu Vinnumálastofnunar er spáð því að atvinnuleysi verði óbreytt í 3,4% í júlí.

Að meðaltali voru 7.398 atvinnulausir í júní. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 299 manns milli mánaða.

Atvinnuleysi lækkaði alls staðar á landinu frá maí. Mest lækkaði atvinnuleysi á Vestfjörðum þar sem það fór úr 2,2% í 1,7%. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í júní eða 5,6% og lækkaði úr 6,1% frá maí. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra eða 1,0%.

Alls komu inn 207 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun Vinnumálastofnunar í júní.

Atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum í júní nema í opinberri þjónustu, fræðslu, heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem fjölgaði um 32.