Skráð atvinnuleysi stóð óbreytt í 3,7% á milli janúar og febrúar, samkvæmt nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar. Að meðaltali voru 6.855 atvinnulausir í febrúar og fjölgaði um 68 á milli mánaða.
Vinnumálastofnun spáir því að draga muni úr atvinnuleysi í mars og gæti atvinnuleysi orðið á bilinu 3,4%-3,6%.
Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í febrúar eða 5,8% og minnkaði úr 6,0% í janúar. Næst mest var atvinnuleysið 3,8% á höfuðborgarsvæðinu þar sem það stóð í stað frá janúar.
Minnst var atvinnuleysi á Norðurlandi vestra 1,3%, á Austurlandi 2,1%, 2,4% á Vesturlandi, og 2,5% á Vestfjörðum. Á Suðurlandi var atvinnuleysi 2,8% og 3,1% á Norðurlandi eystra.
Alls höfðu 1.724 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok febrúar 2023 eða um 24% allra á atvinnuleysisskrá. Í janúar 2023 voru þeir 1.794. Þessi fjöldi hefur farið minnkandi undanfarna mánuði en í febrúar 2022 var fjöldi þeirra 3.439 eða um 34% af öllum á atvinnuleysisskrá.