Skráð atvinnuleysi jókst úr 3,4% í 3,7% á milli desember og janúar, samkvæmt nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar. Skráð atvinnuleysi hefur ekki verið meira frá því í maí 2022. Að meðaltali voru 6.787 atvinnulausir í janúar og fjölgaði um 339 á milli mánaða.
Vinnumálastofnun tekur þó fram að atvinnuleysi sé yfirleitt mest yfir vetrarmánuðina og þá aðallega í janúar og febrúar. Það fari svo yfirleitt lækkandi yfir vor og sumarmánuðina. Stofnunin spáir því að atvinnuleysi verði á bilinu 3,5%-3,7% í febrúar.
Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í janúar eða 6,0% og breyttist ekki frá desember. Alls staðar annar staðar hækkaði atvinnuleysi hlutfallslega á milli mánaða.
Alls voru 3.373 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok janúar. Þessi fjöldi samsvarar um 7,0% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var um 47% í janúar.