Við­skipta­blaða­menn og verð­bréfa­miðlarar ráku upp stór augu á föstu­daginn þegar dóttur­fé­lag sviss­neska fjár­festinga­fé­lagsins Pictect Group greindi frá 15 milljarða dala stöðu­töku sinni í kín­verskum banka.

Um er að ræða eignar­halds­fé­lag Pictect í Hong Kong sem greindi verð­bréfa­eftir­liti Hong Kong frá því að fé­lagið ætti nú 20.013.587.000 hluti í kín­verska iðnaðar­bankanum CCB.

Mun það hafa verið tölu­verð breyting á eigna­safni eignar­halds­fé­lagsins sem átti áður að­eins 13,587,000 hluti í CCB.

Glöggir les­endur geta þó séð að um sömu upp­hæð er að ræða nema það að ein­hverjum hefur tekist að slengja „200“ fyrir framan seinni töluna.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal vakti stöðutakan tölu­verða furðu þegar gögnin voru gerð opin­ber en stöðu­takan hefði sýnt gríðar­lega breytingu í við­horfi evrópskra fjár­festa til kín­verska banka­kerfisins.

Pictect skilaði inn leið­réttum tölum í dag sem sýndu þó að fé­lagið hefur verið að kaupa bréf í bankanum og á núna 33.587.000 hluti að nafn­verði sem er um 0,01% eignar­hlutur í bankanum. Fyrri skráningin hefði leitt til 8,32% eignarhlutar.

„Nýja staðan er sú rétta þar sem magnið sem var gefið upp í fyrri skráingunni var ekki rétt (mis­tök af okkar hálfu),“ segir í gögnunum sem Pictet skilaði inn í gær.

The Wall Street Journal bendir á að þrátt fyrir að greint hafi verið frá þessari risa­stöðu­töku sviss­neska eignar­halds­fé­lagsins á föstu­daginn hafði það lítil á­hrif á gengi CCB.

Hluta­bréf í kín­verska bankanum hafa verið að fylgja þróun markaðarins í Kína og lækkaði um 5,8% í nótt en nær öll hluta­bréf í Kína tóku dýfu í gær og hefur Hang Seng vísi­talan ekki lækkað meira síðan 2008.

Inn­sláttar­villur geta þó verið afar kostnaðar­samar í verð­bréfa­við­skiptum en sam­bæri­leg villa kostaði Citi Group 61,6 milljón pund í maí.