Viðskiptablaðamenn og verðbréfamiðlarar ráku upp stór augu á föstudaginn þegar dótturfélag svissneska fjárfestingafélagsins Pictect Group greindi frá 15 milljarða dala stöðutöku sinni í kínverskum banka.
Um er að ræða eignarhaldsfélag Pictect í Hong Kong sem greindi verðbréfaeftirliti Hong Kong frá því að félagið ætti nú 20.013.587.000 hluti í kínverska iðnaðarbankanum CCB.
Mun það hafa verið töluverð breyting á eignasafni eignarhaldsfélagsins sem átti áður aðeins 13,587,000 hluti í CCB.
Glöggir lesendur geta þó séð að um sömu upphæð er að ræða nema það að einhverjum hefur tekist að slengja „200“ fyrir framan seinni töluna.
Samkvæmt The Wall Street Journal vakti stöðutakan töluverða furðu þegar gögnin voru gerð opinber en stöðutakan hefði sýnt gríðarlega breytingu í viðhorfi evrópskra fjárfesta til kínverska bankakerfisins.
Pictect skilaði inn leiðréttum tölum í dag sem sýndu þó að félagið hefur verið að kaupa bréf í bankanum og á núna 33.587.000 hluti að nafnverði sem er um 0,01% eignarhlutur í bankanum. Fyrri skráningin hefði leitt til 8,32% eignarhlutar.
„Nýja staðan er sú rétta þar sem magnið sem var gefið upp í fyrri skráingunni var ekki rétt (mistök af okkar hálfu),“ segir í gögnunum sem Pictet skilaði inn í gær.
The Wall Street Journal bendir á að þrátt fyrir að greint hafi verið frá þessari risastöðutöku svissneska eignarhaldsfélagsins á föstudaginn hafði það lítil áhrif á gengi CCB.
Hlutabréf í kínverska bankanum hafa verið að fylgja þróun markaðarins í Kína og lækkaði um 5,8% í nótt en nær öll hlutabréf í Kína tóku dýfu í gær og hefur Hang Seng vísitalan ekki lækkað meira síðan 2008.
Innsláttarvillur geta þó verið afar kostnaðarsamar í verðbréfaviðskiptum en sambærileg villa kostaði Citi Group 61,6 milljón pund í maí.