Alls bárust áskriftir að fjárhæð 75,2 milljónir króna í almennu hlutafjárútboði Solid Clouds sem lauk kl. 16 í dag. Fjárfestar skráðu sig fyrir 37,6 milljónum hluta af þeim 90 milljónum sem voru í boði. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
„Þessi fjármögnun gerir félaginu kleift að gefa út Starborne Frontiers í byrjun apríl og hefja markaðssetningu leiksins. Starborne Frontiers hefur verið að fá góðar viðtökur og við erum mjög bjartsýn fyrir framhaldið”, segir Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds.
Söfnuðu samtals 295 milljónum króna
Stjórn leikjafyrirtækisins, sem er skráð á First North-markaðinn, tilkynnti fyrir tveimur vikum að hún hefði safnað bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé í félaginu að andvirði 220 milljónir króna en útgáfuverð var 2 krónur á hlut.
Samhliða því efndi félagið til framangreinds hlutafjárútboðs þar sem öðrum hluthöfum og almennum fjárfestum var boðið að fjárfesta í Solid Clouds á sömu kjörum, m.a. til að gæta jafnræðis meðal hluthafa.
Samtals safnaði leikjafyrirtækið 295 milljónum króna í þessari fjármögnunarlotu, þar af 75 milljónum í almenna hlutafjárútboðinu og 220 milljónum frá stjórnarmönnum, stofnendum, stærstu hluthöfum og nýjum fagfjárfestum.
Solid Clouds hefur þróað leikinn Starborne Frontiers sem verður tilbúinn til útgáfu í apríl næstkomandi en framleiðsla hans hófst um mitt ár 2021.
Félagið gaf það út fyrr í mánuðinum að ef lykilmælikvarðar leiksins verði í samræmi við áætlanir stjórnenda í kjölfar fjárfestingar í markaðssetningu sé ráðgert að ráðast í frekari hlutafjárútgáfu til að styðja enn frekar við áframhaldandi vöxt leiksins.