Rúmlega 70% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni taka ákvörðun um að lækka vexti um 50 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 5. febrúar í næstu viku.

18% svarenda telja að lækkunin muni nema 25 punktum. Þá sjá 8% þeirra fram á 75 punkta lækkun. Tveir þátttakenda spá 100 punkta lækkun og þá spáir einn þátttakenda því að vextir haldist óbreyttir.

Könnunin var send á 276 markaðs- og greiningaraðila á miðvikudaginn í síðustu viku og barst 101 svar sem jafngildir 37% svarhlutfalli.

Markaðsaðilar voru einnig spurðir út í horfur á hlutabréfamarkaði. Nánar tiltekið hvort skráðum félögum á aðalmarkaði muni fjölga, fækka eða standa í stað á árinu 2025.

61% þátttakenda telur að þeim muni fjölga á árinu. 35% sjá fram á að fjöldi skráðra félaga á aðalmarkaði muni standa í stað og einungis 4% telur að þeim muni fækka.

Félög á aðalmarkaði eru 28 talsins. Tvær skráningar voru á aðalmarkað á sl. ári. Líftæknifélagið Oculis var skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar í apríl sl. og varð þar með tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum. Þá voru hlutabréf flugfélagsins Play tekin til viðskipta á aðalmarkaði í ágúst sl., en félagið hafði verið skráð á First North-markaðinn í rúmlega þrjú ár.

Íslandshótel stefndu á skráningu á markað á árinu 2024 en fallið var frá útboðinu og skráningu í maí. Þá varð ekkert úr sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka á árinu.

Íslandsbankasalan handan við hornið

Markaðsaðilar voru þá spurðir út í sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka, nánar tiltekið hvort ríkinu takist að selja hlutinn á árinu 2025.

Rúmur helmingur þátttakenda telur að salan muni fara fram á fyrri hluta árs. Tæplega 35% þeirra telja að hún fari fram á þriðja ársfjórðungi og 12% á þeim fjórða. Tveir þátttakenda sjá ekki fram á að ríkinu takist að selja hlut sinn í Íslandsbanka á þessu ári

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hann hyggist leggja fram nýtt frumvarp um söluferlið á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka áður en næsta söluumferð fer fram. Áfram sé stefnt að almennu útboði en nánari útfærsla á söluferlinu sé í vinnslu.

Síðasta ríkisstjórn hafði áformað almennt útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka á síðasta ári en sölunni var slegið á frest eftir að Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra, ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu í október.

Þingið hafði samþykkt lög um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf. í júní síðastliðnum. Lögin kveða á um að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum.

Daði Már var á dögunum spurður af Viðskiptablaðinu hvers vegna þörf væri á nýjum lögum um söluferlið í ljósi þess að þingið samþykkti lög um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka síðasta sumar. Sagðist Daði Már ekki geta tjáð sig um ástæðuna en bar þó fyrir sig að unnt væri að tryggja að útboðið verði árangursríkt.

„Á þessu stigi máls er ekki unnt að tjá sig að öðru leyti en því að í undirbúningi eru breytingar á gildandi lögum sem snúa að því að tryggja enn betur árangursríkt útboð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.