Kínverski fataframleiðandinn Shein hefur sett sér markmið um skráningu í Kauphöllina í London á fyrsta ársfjórðungi 2025.
Fyrirtækið undirbýr nú fjárfestakynningar og vinnur með fjárfestingabönkunum Goldman Sachs, JP Morgan og Morgan Stanley að skráningunni, að því er kemur fram í grein hjá The Times. Talið er að fyrirtækið sé metið á um fimmtíu milljarða punda fyrir skráningu.
Upphaflega ætlaði Shein að skrá bréf félagsins í Kauphöllinni í New York. Þau áform fóru út um þúfur vegna ýmissa reglugerða.
Shein seldi föt fyrir meira en 1,5 milljarða punda í Bretlandi á síðasta ári, sem nemur 260 milljörðum króna, samkvæmt uppgjöri breska dótturfélagsins, Shein Distribution UK Limited. Þá tvöfaldaðist hagnaður félagsins milli ára og nam 24,4 milljónum punda í fyrra eða um 4,2 milljörðum íslenskra króna.