Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech, segir að það hafi komið til skoðunar hjá félaginu að skrá það á þriðja hlutabréfamarkaðinn. Þetta kemur fram í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark þar sem hann var gestur.

Líftæknilyfjafélagið Alvotech var skráð í kauphöll Nasdaq í New York í júní 2022 með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II. Viku síðar voru hlutabréf félagsins einnig tekin til viðskipta á íslenska First North-markaðnum og í desember 2022 færði félagið sig yfir á aðalmarkað íslensku kauphallarinnar.

„Ég myndi nú segja ósatt ef ég sagði að ég hafi ekki skoðað það,“ sagði Róbert, spurður um hvort skráning á þriðja hlutabréfamarkaðinn komi til greina. „Það er alveg möguleiki að skrá félagið á þriðja staðnum. Ég ætla [hins vegar] ekki að fullyrða að það sé eitthvað sem við ætlum að gera.“

Róbert sagði að þegar sú ákvörðun var tekin á sínum tíma hvar skyldi skrá Alvotech þá hafi hann hugsað með sér að í Bandaríkjunum væri ekkert annað félag á þeim markaði í líkingu við Alvotech. Vissulega séu nokkur líftæknifélög en ekkert alveg eins og Alvotech. Þá hafi líftæknihliðstæður ekki byrjað að taka til sín alvöru markaðshlutdeild fyrr en árið 2019.

„Þannig að það sem ég hafði í huga þegar ég skráði félagið var að það þyrfti að vera á helst tveimur mörkuðum þar sem það væri kannski auðveldara að fræða minni markaðinn - hvort sem það væri Ísland eða í Skandinavíu, t.d. Svíþjóð, mikið af líftæknifyrirtækjum þar.“

Orðið vel þekkt en lítil velta skapi hindranir

Hann hafi séð fyrir sér að í kjölfarið myndu viðskipti með hlutabréf félagsins í Bandaríkjunum taka við sér þegar Alvotech væri búið að skila hálfu eða heilu ári af jákvæðri rekstrarafkomu, og búið að kynna fjárfestum og greiningaraðilum betur hvað félagið standi fyrir.

„Ég held að í dag sé Alvotech vel þekkt meðal stærstu fjárfesta í Bandaríkjunum. Við þurfum aldrei að fara á fund og kynna félagið. Ég sé á meðal allra leiðandi fjárfesta í Bandaríkjunum, sem eru að fjárfesta í lyfjageiranum, þeir eru kannski búnir að fylgjast með félaginu sumir hverjir í 2-3 ár sem er mjög ánægjulegt líka.“

Hann benti hins vegar á að lítil velta með hlutabréf Alvotech í Bandaríkjunum hafi skapað hindranir hvað varðar að fá stóra erlenda hlutabréfasjóði til að fjárfesta í félaginu. Margir sjóðir séu með takmarkanir á hversu mikið þeir mega kaupa miðað við daglega veltu bréfanna.

„Við verðum að sjá veltuna aukast í Bandaríkjunum til að ná inn þessum stóru sjóðum. Ég held að snjóboltaáhrifin muni eiga sér stað mjög hratt í Bandaríkjunum um leið við komumst yfir 4-5 milljónir dollara í veltu á dag. Þá mun sá snjóbolti stækka mjög hratt að mínu mati.

„Ef að ef að það mun ekki ganga sem skyldi - sem ég hef enga ástæðu til að ætla - þá kæmi alveg til greina að skoða eitthvað milliskref,“ sagði Róbert í umræðu um mögulega þríhliða skráningu Alvotech.

Róbert sagði að þótt það sé ekki endilega hlutverk félagsins, þá muni Alvotech klárlega leggja sitt af mörkum um að sannfæra lykilfjárfesta í Bandaríkjunum að velta með bréf félagsins muni aukast á næstunni.

„Við teljum að það sé samt okkar hlutverk, komandi inn í 2025, að finna lausn á því hvernig velta félagsins geti aukist á komandi ári - bara vitandi að það er mikill áhugi en það er þessi þröskuldur sem við þurfum að geta stigið yfir sem bæði hluthafar og félag.“

Róbert ræðir um skráningu Alvotech á hlutabréfamarkaði frá 41:30-46:40.