Controlant hagnaðist um 1,4 milljarða króna á síðasta ári og tekjurnar tífölduðust á milli ára. Hluthöfum félagsins fjölgaði um eitt hundrað á milli ára og eru nú um 250 talsins. Spurður um framtíðaráform varðandi eignarhald félagsins þá segir Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, að sala á fyrirtækinu sé ekki inni í myndinni á þessum tímapunkti sem og skráning á hlutabréfamarkað.
„Það er náttúrulega mikill áhugi á félaginu en það verður bara að koma í ljós hvort og þá hvenær við myndum vilja fara á markað eða hvort við fáum inn tilboð sem hluthafar vilja samþykkja. Við fáum allskonar fyrirspurnir, bæði hérlendis og erlendis og mörg fyrirtæki hafa viljað fara í viðræður um kaup á fyrirtækinu. Við erum bara í þeirri stöðu að það gengur vel, við erum að skila hagnaði og erum að skapa mikið virði fyrir þessar virðiskeðjur.“
Stjórn Controlant telur aðkomu sérhæfðra fjárfesta á þessu sviði geta stutt enn frekar við framtíðaruppbyggingu félagsins.
„Það er að hefjast önnur vegferð hjá fyrirtækinu. Við höfum vaxið mjög hratt á tveimur árum og erum að vaxa áfram. Fyrirtækið óneitanlega breytist við það. Það er alltaf gott að fá inn reynslumikið fólk sem hefur gengið í gegnum slíkan vöxt. Það er nú kannski fyrst og fremst það sem við erum að leitast eftir,“ segir Gísli.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.