Skráningarpartíið er ekki búið í Kauphöllinni samkvæmt heimildarmönnum Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði þrátt fyrir þunga stemningu á mörkuðum síðustu misseri og á fyrsta viðskiptadegi Nova á þriðjudaginn.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, tekur í sama streng og segir að sú alda skráninga og útboða sem riðið hafi yfir sýni gjörbreytt landslag á hlutabréfamarkaði og þar með fjármögnunarumhverfi fyrirtækja.
Líta megi á þá staðreynd að útboð þessa árs hafi yfirhöfuð farið fram og að þátttakan hafi þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður verið mjög góð á flesta mælikvarða sem eina skýrustu birtingarmynd þess hversu mikið markaðurinn hefur styrkst.
„Mér finnst það afskaplega jákvætt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað að þarna séu um fimm þúsund almennir fjárfestar að kaupa fyrir fjóra milljarða króna,“ segir Magnús, en fjöldi áskrifta skilaði Nova í fimmta sæti yfir fjölda hluthafa í Kauphöllinni á eftir viðskiptabönkunum tveimur, Icelandair og Marel miðað við nýjustu fáanlegu upplýsingar sem eru frá áramótum, þrátt fyrir að vera næstminnst á aðalmarkaði, þar sem aðeins Sýn hefur lægra heildarmarkaðsvirði.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.