Stuttu áður en Alþingi fór í jólafrí var frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur samþykkt. Frumvarpið byggði að meginefni til á tillögum starfshóps, sem skipaður var 2017, um heildarendurskoðun á regluverki um leigubifreiðar.
Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur sem sat í áðurnefndum starfshóp, segir að þrátt fyrir að stórt skref sé tekið í frelsisátt með nýju lögunum – verið sé að opna markaðinn og auka samkeppnina, þá standi ákveðnar hindranir enn eftir. Til að mynda sé bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að fá leigubílapróf.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
„Eins og staðan er í dag þá kostar námskeiðið um 250 þúsund krónur og tekur heila vinnuviku. Það er frekar hár fórnarkostnaður fyrir einstakling sem hefur hug á að keyra leigubíl í hlutastarfi,“ segir Jóhannes.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að rekstrarleyfi samkvæmt því svipi um margt til atvinnuleyfis samkvæmt gildandi lögum. Ákveðin skilyrði fyrir rekstrarleyfi eru tilgreind í lögunum, en reglugerðarheimild ráðherra er nokkuð þröng. Það má því gera ráð fyrir að skilyrði í reglugerð varðandi það að forfallabílstjórar þurfi að hafa keyrt leigubíl í afleysingum í ár til þess að geta öðlast réttindin verði afnumið.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 12. janúar.